Innlent

Vita ekki hvort erlendur ökuþrjótur sé löglega í landinu

Stefán Ó. Jónsson skrifar
Gatnamót Miklabrautar og Kringlumýrarbrautar.
Gatnamót Miklabrautar og Kringlumýrarbrautar. Vísir/Vilhelm

Lögreglan segist hafa stöðvað „erlendan mann“ sem ók á 120 km/klst á Kringlumýrarbraut skömmu eftir miðnætti, en þar er hámarkshraði 80 km/klst. Ekki aðeins er manninum gefið að sök að hafa ekið of hratt heldur jafnframt að hafa ekki getað framvísað „ökuskírteini né öðrum skilríkjum.“

Fyrir vikið hafi lögreglan átti í erfiðleikum með að staðfesta hvort hann væri yfir höfuð með ökuréttindi eða „að hann væri í löglegri dvöl á landinu.“ Mál hans verði skoðað betur þegar líða tekur á daginn.

Að frátöldum þjófnaði í Skeifunni, þar sem tveir liggja undir grun, voru umferðarlagabrot fyrirferðamest í nótt að sögn lögreglunnar. Nokkrir voru þannig stöðvaðir vegna gruns um akstur undir áhrifum vímuefna auk þess sem umferðaróhapp í Spönginni er rakið til vímaðs ökumanns.

Þá segist lögreglan hafa haft afskipti af ökumanni sem var að „drifta“ við Korputorg. „Auk þess sat „farþegi“ uppi á þak bifreiðarinnar á meðan þessu stóð,“ skrifar lögreglan í dagbók síðan án þess að tilgreina hvernig málið var afgreitt.

Þá segist lögreglan jafnframt hafa vakið drukkinn strætófarþega í Hamraborg um klukkan 23, eftir að vagnstjórinn hafði gert misheppnaða tilraun til þess. Það tókst þó á endanum „og ekki urðu frekari eftirmálar,“ að sögn lögreglu.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×