Erlent

Bali lokuð næstu mánuði

Stefán Ó. Jónsson skrifar
Tekið á móti indónesískum ferðamönnum á alþjóðaflugvellinum á Bali þann 31. júlí síðastliðinn.
Tekið á móti indónesískum ferðamönnum á alþjóðaflugvellinum á Bali þann 31. júlí síðastliðinn. Getty/Johanes Christo

Indónesísk stjórnvöld hyggjast ekki opna eyjuna Balí fyrir alþjóðlegum ferðamönnum fyrr en í fyrsta lagi um áramót. Upphaflega hafði verið áætlað að þeir mættu halda aftur þangað í september en sökum fjölgunar kórónuveirutilfella í Indónesíu hefur opnuninni verið skotið á frest.

Balí er vinsæll áfangastaður en þangað halda milljónir ferðamanna árlega til njóta hitabeltisloftslags, matar og menningar. Þeim fækkaði hins vegar skarpt í sumar þegar stjórnvöld lokuðu landamærunum fyrir öðrum en þeim sem þar hafa búsetu.

Síðastliðinn mánuð hafa ferðamálayfirvöld á Bali reynt að lokka til sín Indónesa en það hefur dugað skammt. Hótel og veitingastaðir berjast í bökkum og starfsmenn þeirra neyðst til að halda aftur til síns heima í leit að atvinnu.

Alls hafa næstum 4600 kórónuveirutilfelli verið greind á Balí og 52 hafa látið lífið. Á landsvísu eru tilfellin 155 þúsund og dauðsföllin næstum 6800, sem er mesta mannfall í faraldrinum í nokkru ríki Suðaustur-Asíu. Sérfræðingar telja hins vegar að tölurnar væru hærri ef indónesísk stjórnvöld hefðu hefðu tök á að veita víðtækara skimun.

Á vef breska ríkisútvarpsins er vísað í yfirlýsingu ríkisstjóra Bali þar sem segir að ástandið í landinu leyfi ekki móttöku erlendra ferðamanna. Þó svo að þess sé ekki getið í yfirlýsingunni hvenær Bali verður opnuð á ný segir ríkisstjórinn ólíklegt að það verði fyrr en í fyrsta lagi í lok þessa árs.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×