Íslenski boltinn

„Virðist meira hugsað um leik Ís­lands og Eng­lands en fé­lögin í landinu“

Anton Ingi Leifsson skrifar
Rúnar í góðri fjarlægð í dag.
Rúnar í góðri fjarlægð í dag. vísir/skjáskot

Rúnar Kristinsson, þjálfari KR, skaut aðeins á forsvarsmenn KSÍ í viðtali við Ríkharð Óskar Guðnason en KR-ingar losna úr sóttkví á miðnætti.

KR mætir Val á miðvikudaginn í fyrsta leiknum eftir sóttkvína frægu en KR-ingar fóru í sóttkví eftir ferðina til Skotlands.

Flautað verður til leiks á Meistaravöllum klukkan 17.00 og leikurinn að sjálfsögðu í beinni útsendingu á Stöð 2 Sport.

„Við fengum svar að við gátum byrjað í þessari vinnusóttkví eða hvað sem þetta kallast, seint á föstudagskvöld, svo við byrjuðum að æfa á laugardagsmorgni,“ sagði Rúnar, í góðri fjarlægð.

„Við æfðum laugardag og sunnudag og svo aftur í dag [mánudag]. Versta við þetta er að við gátum ekkert æft miðvikudag til föstudags. Það hefði verið betra að fá einhverjar æfingar en þetta breytir kannski ekki öllu.“

Rúnar segir að hann hafi viljað sjá öðruvísi stjórnarhætti hjá KSÍ og segir að landsleikur Íslands og Englands í Þjóðadeildinni virðist hafa átt hug allra hjá KSÍ.

„Þetta er bara staðan. Við verðum að sætta okkur við þetta og keyra á þetta áfram. Við erum ekkert öðruvísi en aðrir og maður hefði viljað sjá KSÍ beita sér meira fyrir félögin í landinu, frekar en, eins og þetta virðist vera, að það sé meira verið að hugsa um leik Englands og Íslands.“

„Það virðist vera hugsað meira um þann leik en félögin.“

Hann segir að allir þeir sem höfðu fengið svör úr síðari skimuninni, þegar viðtalið var tekið, hafi reynst neikvæðir.

„Við erum búnir að vera fá svör í dag flest allir en það eru nokkrir sem hafa ekki fengið svar. Allir eru neikvæðir en ætla að koma jákvæðir á æfingu. Það eru gleðifréttir og vonandi geta týnast inn síðustu nöfnin á eftir og þá erum við orðnir frjálsir aftur,“ sagði Rúnar.

Viðtalið við Rúnar má sjá hér að neðan.

Klippa: Sportpakkinn - Rúnar Kristinsson

Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×