Umfjöllun og viðtöl: FH - HK 4-0 | FH vann stórsigur í sólinni

Víkingur Goði Sigurðarson skrifar
FH - ÍA Pepsi max deild karla, Sumar 2020.?
FH - ÍA Pepsi max deild karla, Sumar 2020.?

FH vann HK 4-0 í dag í tíðindalitlum leik í Pepsi Max deild karla. FH fengu tvö færi í fyrri hálfleik, nýtti þau bæði og sigldu sigrinum síðan bara heim.

Martin Rauschenberg var næstum því búinn að koma gestunum yfir í byrjun leiksins eftir skemmtilega útfærslu á föstu leikatriði frá HK en þeir gerðu vel með föstu leikatriðin sín í leiknum. Martin fékk boltann í teignum frá Valgeiri Valgeirssyni en Gunnar Nielsen náði að verja vel.

HK voru í upphafi leiks ekki mikið að reyna að halda boltanum en átti samt þessi föstu leikatriði sín og nokkrar ágætar snöggar sóknir. FH héldu boltanum aðeins meira en voru alls ekki að spila neinn glans fótbolta.

Steven Lennon kom FH yfir þegar hálftími var liðinn af leiknum. Lennon fékk boltann í teignum eftir misheppnað skot frá Jónatan Inga og lék í kjölfarið alveg á Ásgeir Börk og kláraði snyrtilega framhjá Arnari Frey í markinu.

FH voru ekki lengi að bæta í forystuna en nokkrum mínútum síðar bætti Þórir Jóhann Helgason við marki fyrir FH. Steven Lennon lagði boltann út á Þóri en Steven Lennon fékk boltann á góðum stað í teignum eftir frábær tilþrif hjá Jónatan Inga Jónssyni.

FH leyfðu HK að vera meira með boltann eftir að þeir komust og HK fóru að ógna meira. Þeir náðu að skjóta nokkrum sinnum í átt að markinu en ekkert sem ógnaði almennilega.

HK byrjuðu seinni hálfleikinn af krafti en voru samt mjög nálægt því að fá mark á sig á 55. mínútu þegar Ólafur Karl Finsen fékk gott færi í teignum hjá HK. HK áttu nokkur fín færi og voru mikið með boltann en þeir gefa engin stig fyrir það.

Undir lok leiksins voru HK farnir að fara með marga menn fram og þá opnuðust svæði fyrir FH. Steven Lennon bætti við tveimur mörkum í viðbót en varamennirnir Atli Guðnason og Kristján Gauti Emilsson gáfu honum báðir frábærar sendingar sem leiddu til þess að hann var einn á móti markmanni.

Af hverju vann FH?

FH nýttu færin sín frábærlega. HK voru örugglega með boltann meira í leiknum og svona en FH voru bara miklu ákveðnari með sóknirnar sínar og svo eru þeir líka með svindlkall sem skoraði þrjú mörk og lagði upp hitt markið.

Hverjir stóðu upp úr?

Steven Lennon var geggjaður í dag. Skoraði þrjú og lagði upp hitt markið hjá FH í dag. Hann hefði svo sem ekki getað skorað fleiri en vinnslan í honum var líka góð. Miðjan hjá FH var mjög fín í dag, sérstaklega Þórir Jóhann sem skoraði annað mark FH í leiknum.

Guðmann og Pétur voru kannski ekkert frábærir í stutta spilinu í dag en þeir voru geggjaðir í að loka svæðum og halda HK frá því að fá færi. Mjög flottur leikur hjá þeim í vörninni. Varamennirnir Atli Guðna og Kristján Gauti komu síðan mjög vel inn í leikinn og lögðu báðir upp mörk, flott innkoma hjá þeim.

Jón Arnar Barðdal var duglegur sem fremsti maður hjá HK og kom sér nokkrum sinnum í ágætis færi en ekki mikið meira en það. Annars voru leikmenn HK allir bara nokkuð svipaðir í dag.

Hvað gekk illa?

Það reyndi ekki oft á vörnina hjá HK í dag en þegar þeir þurftu að gera eitthvað voru þeir einfaldlega langt frá því að vera nógu góðir. Tveggja metra reglan gildir ekki inni á fótboltavellinum en það mátti halda það í öllum mörkunum í dag þar sem markaskorararnir voru bara aleinir.

HK áttu kafla þar sem þeir voru miklu meira með boltann og náðu að pressa FH niður. Það vantaði samt alltaf bara eitthvað til að sprengja upp vörnina og þeir enduðu oftast bara með einhverja krossa sem voru verulega ólíklegir til árangurs.

Hvað gerist næst?

FH fá Dunaskja Streda í heimsókn á fimmtudaginn í undankeppni Evrópudeildarinnar. Gríðarlega mikivægur leikur fyrir FH sem gæti styrkt fjárhag félagsins töluvert. HK fá nýliða Gróttu í heimsókn í leik þar sem þeir geta spyrnt sér vel frá fallbaráttunni.

Eiður Smári: Ég myndi ekki skipta honum út fyrir neinn

„Við vorum á köflum góðir. Góðu kaflarnir voru nóg hjá okkur til að vinna góðan sigur,” sagði Eiður Smári Guðjohnsen þjálfari FH um leik sinna manna í dag.

FH voru mjög þéttir varnarlega í leiknum en HK stundum að halda boltanum meira en þeir leyfðu engin dauðafæri úr opnum leik.

„Við náðum að loka ágætlega. Það var kannski korter í síðari hálfleik þar sem ég hefði viljað sjá okkur stíga aðeins upp og vera aðeins framar á vellinum. En í 90 mínútna leik lendir þú alltaf í því að mótherjinn mun færa sig upp völlinn. Eins og þú sagðir þá gáfum við ekkert frá okkur. Það var kannski aðallega í föstum leikatriðum þar sem við vorum ekki alveg nógu öruggir. Sérstaklega í fyrri hálfleik. En 4-0 á heimavelli þá er ekki yfir miklu að kvarta.”

Boltinn tvisvar í fyrri hálfleik eftir hornspyrnur frá HK alveg í gegnum pakkann og það var hálf ótrúlegt að HK hafi í hvorugt skiptið verið nálægt því að skora.

„Helst vill maður það þegar maður er á hliðarlínunni að einhver hreinsi þetta langt og hátt í burtu. Sem betur fór boltinn bara í gegnum allan pakkann. En þetta er klárlega eitthvað sem við töluðum um í hálfleik og þurfum að skoða aðeins betur.”

FH gerðu í seinni hálfleik tvöfalda skiptingu og settu Kristján Gauta Emilsson og Atla Guðnason inná. Þeir lögðu báðir upp mark og sýndu hvað þeir búa yfir miklum gæðum.

„Þeir voru mjög sterkir. Það er mikið ánægjuefni að fá Gauta inn aftur. Hann er búinn að vera fjarverandi lengi frá fótbolta og sýndi strax bara hversu öflugur hann getur verið. Þið þurfið ekki mig til að segja hvað Atli Guðna hefur gert hérna á Íslandi og hvað þá fyrir þetta félag. Hann sýnir bara gæðin sem hann hefur ennþá.”

Steven Lennon var stórkostlegur í dag. Hann skoraði þrjú mörk og lagði upp annað.

„Það er alltaf gott að hafa Steven Lennon. Hann þarf ekki að skora mörk til að það sé gott að hafa hann. Þetta er bara leikmaður sem hagar sér eins og atvinnumaður alla daga. Hvort sem það er á æfingu, í leikjum, eða inni í klefa. Hann ætti að vera fyrirmynd fyrir unga leikmenn sem fylgjast með íslenskum fótbolta. Hann vinnur svo sannarlega fyrir mörkunum sem hann fær og ég myndi ekki skipta honum út fyrir neinn.”

FH á að spila mikilvægan leik í undankeppni Evrópudeildarinnar á fimmtudaginn. Miðað við ástandið í heiminum í dag varð maður að spyrja sig fyrst hvort það væri ekki alveg öruggt að hann gæti verið spilaður.

„Nú er ég ekki maðurinn til að svara þeirri spurningu. Eins og við vitum þá eru þetta skrítnir tímar. Við bara högum okkur samkvæmt þeim reglum sem okkur hafa verið settar. Við vonum bara alla vegna og fótboltans vegna að sá leikur verði spilaður hér. Við gefum okkur tíma hérna til að ná þessum leik úr löppunum og komum saman á morgun og síðan byrjar bara undirbúningur.”

Allt bendir til þess að leikurinn verði spilaður sem er mjög gott fyrir FH en fjárhagslega er þetta örugglega mikilvægasti leikurinn á tímabilinu fyrir þá.

„Það eru allir leikir mikilvægir. Við viljum náttúrulega reyna að vinna sem flesta. Þetta er sennilega sterkasta liðið sem við hefðum getað dregist á móti í þessari umferð en við verðum bara að vera tilbúnir.”

Brynjar Björn: Við erum að sjálfsögðu að vinna í því að finna hægri bakvörð

„Mér finnst 4-0 ekki alveg lýsa gang leiksins. Í fyrri hálfleiknum vorum við nánast bara með yfirhöndina, allavega í að skapa færi. Við áttum möguleika á að skora fyrsta markið í leiknum. Það komu bara einhverjir tveir boltar af viti inn í teig hjá okkur í fyrri hálfleik og þeir skora mörk upp úr því,” sagði Brynjar Björn Gunnarsson þjálfari HK um leik dagsins en HK fengu á sig tvö mörk á lokamínútunum sem láta úrslitin líta illa út.

HK áttu fína kafla í fyrri hálfleik en FH voru beittir þegar þeir komust í sóknir.

„Það var svekkjandi að hafa ekki verið meira inni í leiknum þegar það kom hálfleikur. Að sama skapi komum við út og fáum mjög gott færi í byrjun seinni hálfleiks. Við nýtum það ekki og upp úr því þá fjaraði leikurinn dálítið frá okkur.”

HK voru mikið með boltann í síðari hálfleik og áttu kafla þar sem þeir þvinguðu FH alveg niður en síðan gátu þeir ekkert gert með boltann. Þeir flengdu boltanum oftast eitthvað inn í teiginn eftir að senda á milli á miðjunni.

„Við náðum að þvinga FH niður á þeirra teig og það er erfitt að brjóta það niður. Við áttum möguleika á fyrirgjöfum og öðru slíku. Í lok leiks vorum við áfram að reyna að halda boltanum og okkur var refsað grimmilega. Við fáum á okkur tvö mörk þarna í lokin.”

Valgeir Valgeirsson fór meiddur útaf í upphafi seinni hálfleiks en hann hefur átt við meiðslavandræði að stríða í sumar.

„Ég veit ekki stöðuna á honum eins og staðan er núna.Hann var aumur í ökklanum fyrir leik þannig að við verðum bara að sjá á honum hvernig hann kemur út úr þessu.”

HK seldu Birki Val Jónsson út til Slóveníu fyrir tæplega mánuði og eru því ekki með hægri bakvörð. Valgeir Valgeirsson er búinn að vera að leysa þessa stöðu en hann fór meiddur útaf og Ívar Örn Jónsson fór örvfættur yfir í hægri bakvörðinn restina af leiknum.

„Ég veit ekki hver verður þar nema ef það verður Valgeir. Ætli það endi ekki bara á því að ég skipti þarna yfir,” segir Brynjar og hlær áður en hann heldur áfram. „Við erum að vinna í því, það eru einhverjir möguleikar þarna úti og við erum að skoða þá. Hvort sem það verði fyrir næsta leik eða leikinn þar á eftir en það er náttúrulega ekki mikill tími eftir af glugganum. Við erum að sjálfsögðu að vinna í því að finna hægri bakvörð.”

HK eru semsagt að leita sér að hægri bakverði og stefna ekki á að hafa Valgeir þar út sumarið ef þeir geta sleppt því.

„Það er ekki planið en hann getur vel spilað þar ef enginn annar kemur.”

Bein lýsing

Leikirnir






    Fleiri fréttir

    Sjá meira