Fótbolti

Loks tapaði Klopp tveggja leikja einvígi

Runólfur Trausti Þórhallsson skrifar
Klopp fór mikinn á hliðarlínunni í gær.
Klopp fór mikinn á hliðarlínunni í gær. Vísir/Getty

Tap Liverpool gegn Atletico Madrid í 16-liða úrslitum Meistaradeildar Evrópu á Anfield í gær var fyrsta tap liðsins í tveggja leikja einvígi í Evrópukeppni undir stjórn Þjóðverjans Jürgen Klopp. Eftir 1-0 sigur í venjulegum leiktíma fór leikurinn í framlengingu þar sem Atletico Madrid vann fyrri leik liðanna einnig 1-0. 

Framlengingin var ein sú ótrúlegasta sem sést hefur en Liverpool skoraði strax í upphafi hennar áður en Atletico svaraði með þremur mörkum. Leiknum lauk því með 3-2 sigri þeirra spænsku sem unnu einvígið þar með 4-2 og ríkjandi Evrópumeistarar Liverpool þar með úr leik.

Fram að leiknum í gærkvöldu hafði Liverpool því unnið öll 10 einvígi sín í Evrópukeppnum undir stjórn Klopp þar sem leiknir voru tveir leikir. Liðið hafði aðeins beðið ósigur í úrslitaleikjum, annars vegar gegn Sevilla í Evrópuddeildinni og Real Madrid í Meistaradeildinni.

Frá því að Klopp tók við Liverpool hefur gengi félagsins í Evrópukeppnum verið lygilegt. Á hans fyrsta tímabili með liðið komst það í úrslit Evrópudeildarinnar eftir að hafa lagt Augsburg, Manchester United, Borussia Dortmund og Villareal á leið sinni í úrslitaleikinn. Þar tapaði liðið hins vegar 3-1 gegn Sevilla frá Spáni.

Liverpool vann vissulega bara annan leikinn í hverju einvígi fyrir sig en það dugði til að fleyta þeim áfram í úrslit.

Ári síðar, leiktíðina 2016/2017 var Liverpool ekki í Evrópukeppni en síðustu tvö ár hefur það komist alla leið í úrslit Meistaradeildar Evrópu. 

Leiktíðina 2017/2018 vann enska liðið Porto, Manchester City og Roma á leið sinni í úrslitaleikinn þar sem Liverpool tapaði eftirminnilega 3-1 fyrir Real Madrid í leik sem kostaði Loris Karius stöðu sína sem aðalmarkvörður félagsins. Ári síðar komst Liverpool aftur í úrslit þar sem það mætti Tottenham Hotspur. Að þessu sinni bar liðið úr Bítlaborginni sigur úr býtum með öruggum 2-0 sigri í einkar óspennandi leik.

Á leið sinni í úrslitaleikinn voru Bayern Munich, Porto og Barcelona lögð af velli. Leikurinn gegn Börsungum fer í sögubækurnar en eftir 3-0 tap á Nývangi þá unnu Liverpool ótrúlegan 4-0 sigur á heimavelli þökk sé sigurmarki Divock Origi á 79. mínútu eftir snögga hornspyrnu Trent Alexander-Arnold.

Liverpool kemst hins vegar ekki í úrslitaleik Meistaradeildar Evrópu þriðja árið í röð eftir tapið í gær.


Tengdar fréttirAthugið. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Vísir hvetur lesendur til að halda sig við málefnalega umræðu. Einnig áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi eða ósæmilegar athugasemdir og ummæli þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.