Íslenski boltinn

Guðni um Rúmeníu leikinn: Ýmis­legt sem bendir til þess að honum verði frestað

Anton Ingi Leifsson skrifar

Guðni Bergsson, formaður KSÍ, segir að margt bendi til þess að leikur Íslands gegn Rúmeníu í umspili um laust sæti á EM 2020 sem á að fara fram þann 26. mars verði frestað vegna kórónuveirunnar.

KSÍ tilkynnti í dag að allt mótahald yrði lagt niður næstu fjórar vikurnar en þetta kom eftir að heilbrigðisráðherra hafi sett samkomubann á samkomur þar sem fleiri en 100 manns koma saman.

„Við kölluðum til stjórnarfundar og ákváðum að fresta okkar mótum, frá og með deginum í dag, sem og öllum landsliðsæfingum og fræðslufundum til þess að bregðast við þessum tilmælum og fyrirmælum stjórnvalda,“ sagði Guðni.

Formaðurinn segir að það hafi fátt annað verið í stöðunni.

„Þetta hefur auðvitað áhrif á okkar starfsemi og samfélagið allt. Núna verðum við að standa saman um það og ná sem bestum tökum á stöðunni eins og hún er. Mér hefur fundist stjórnvöld halda vel á málinu hingað til. Þetta eru erfiðar og sérstakar aðstæður en það hefur verið tekist á við þær af mikilli fagmennsku.“

„Ég tel að það hafi verið okkar skylda að taka þátt í þessum aðgerðum og gera það sem við getum til að við náum að hefta útbreiðslu á vörinni og hægja á henni. Okkur er þa skylt að bregðast við.“

Guðni segir að margt bendi til þess að leikur Íslands og Rúmeníu verði frestað. Að minnsta kosti verði hann leikinn fyrir luktum dyrum.

„Það er ljóst að hann yrði leikinn fyrir luktum dyrum að óbreyttu. Það verður tekinn ákvörðun um leikinn á þriðjudaginn og hvort að hann verði spilaður. Ég á alveg jafn mikið von á því að honum verði frestað. Það er ýmislegt sem bendi til þess. Við vitum meira um það á þriðjudaginn.“

Allt innslagið má sjá í heild sinni hér að ofan.Athugið. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Vísir hvetur lesendur til að halda sig við málefnalega umræðu. Einnig áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi eða ósæmilegar athugasemdir og ummæli þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.