Erlent

Fyrsta veirutengda dauðsfallið í Bandaríkjunum staðfest

Vésteinn Örn Pétursson skrifar
Trump Bandaríkjaforseti (t.h.) hefur hvatt til stillingar.
Trump Bandaríkjaforseti (t.h.) hefur hvatt til stillingar. Vísir/Getty

Heilbrigðisyfirvöld í Bandaríkjunum hafa staðfest fyrsta andlátið af völdu COVID-19 sjúkdómsins þar í landi. Maðurinn var á sextugsaldri og lést í Washingtonríki. Þá er maðurinn sagður hafa glímt við undirliggjandi heilsufarsvandamál.

Donald Trump Bandaríkjaforseti hefur sagt að líklegt sé að fleiri tilfelli sjúkdómsins, sem valdið er af kórónuveiru sem nú dreifist um heiminn, komi upp. Yfirvöld séu þó við öllu búin. Þá biðlar hann til fjölmiðla, stjórnmálamanna og annarra að gera sitt besta til þess að dreifa ekki ótta í samfélaginu.

Í dag bárust líka fregnir af fyrstu dauðsföllum vegna sjúkdómsins, bæði í Ástralíu og í Taílandi. Í Ástralíu lést 78 ára gamall maður sem smitaðist af kórónuveirunni á skemmtiferðaskipinu Diamond Princess í Japan í síðasta mánuði. Í Taílandi var það hins vegar 35 ára gamall maður sem beið bana, en sá hafði einnig þjáðst af beinbrunasótt.

Samkvæmt nýjustu upplýsingum frá Alþjóðaheilbrigðismálastofnuninni (WHO) hafa 85 þúsund tilfelli kórónuveirunnar verið staðfest í alls 57 löndum. Tæp þrjú þúsund hafa þá látið lífið, og þá að lang mestu leyti í Kína, þar sem veiran er talin eiga uppruna sinn.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×