Innlent

Auka­fjár­magn til þrifa vegna kórónu­veirunnar

Kristín Ólafsdóttir skrifar
Þórdís Lóa Þórhallsdóttir er formaður borgarráðs.
Þórdís Lóa Þórhallsdóttir er formaður borgarráðs. Vísir/Vilhelm

Borgarráð hyggst leggja til fjármagn til aukinna þrifa í stofnunum borgarinnar vegna kórónuveirunnar sem veldur Covid19-sjúkdómnum. Þetta var samþykkt á borgarráðsfundi í morgun.

Í tilkynningu segir að sérstök áhersla verði lögð á aukin þrif í stofnunum og starfsstöðum sem þjónusta og vista heilsufarslega viðkvæma einstaklinga.

„Fagsviðum og stofnunum þeirra er falið að gera aðgerðaráætlanir um hvernig staðið verði að auknum þrifum og að leggja mat á áætlaðan viðbótarkostnað vegna þessa. Fjármála- og áhættustýringarsviði er falið að halda með heildstæðum hætti utan um kostnaðarmatið,“ segir í tilkynningu.

Neyðarstjórn Reykjavíkur virkjaði viðbragðsáætlun Reykjavíkurborgar fyrir hættustig almannavarna á föstudaginn í kjölfar fyrsta staðfesta kórónuveirusmitsins. Neyðarstjórn hefur fundað daglega síðan. Unnið hefur verið að því að koma nauðsynlegum upplýsingum sem fyrst til starfsfólks borgarinnar í nánu samstarfi við almannavarnir.

Í tilkynningu segir að neyðarstjórn búi m.a. að því að fyrir tæpum mánuði var haldin æfing vegna heimsfaraldurs inflúensu og viðbragðsáætlanir uppfærðar. Borgarráð hvetur jafnframt starfsfólk borgarinnar til að fylgjast vel með fyrirmælum landlæknis og heilbrigðisstarfsfólks m.a. um sóttvarnir, almenna umgengni og þrif.

„Yfirstandandi verkfall í borginni gerir þessa stöðu sérstaklega alvarlega þar sem fyrir liggur að almennum þrifum er nú þegar ábótavant á vissum stöðum auk þess sem sorp er farið að safnast fyrir bæði við heimili fólks og í borgarlandinu. Reykjavíkurborg leggur nú allt kapp á að vinna það upp á undanþágum sem hafa fengist vegna sorphirðu og heimaþjónustu velferðarsviðs. Sorphirða í Breiðholti hófst í morgun,“ segir í tilkynningu borgarinnar.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×