Innlent

Útdeilingu messuvíns og obláta breytt vegna kórónuveirunnar

Vésteinn Örn Pétursson skrifar
Prestar landsins hafa fengið tilmæli um að breyta guðsþjónustu sinni vegna COVID-19.
Prestar landsins hafa fengið tilmæli um að breyta guðsþjónustu sinni vegna COVID-19. Vísir/Vilhelm

Prestum Þjóðkirkjunnar hafa borist þau tilmæli frá Agnesi M. Sigurðardóttur biskup að fólk drekki ekki af sama bikar þegar sakramentinu er útdeilt við guðsþjónustu. Eins mælir biskup gegn því að safnaðarmeðlimir dýfi oblátunni í messuvínið.

Þetta kemur fram í bréfi biskups til presta sem Þjóðkirkjan birti á Twitter. Þar brýnir biskup fyrir prestum að kynna sér vel leiðbeiningar landlæknis vegna útbreiðslu kórónuveirunnar sem valdið getur sjúkdómnum COVID-19.

„Ég hvet til þess að handspritt verði við kirkjudyr svo kirkjugestir geti notað það þegar þeir koma til kirkju. Prestar fylgi einnig leiðbeiningum varðandi handþvott og sprittþvott áður en þeir ganga til guðsþjónustunnar. Einnig hvet ég til þess að handaband í friðarkveðju og við kirkjudyr í lok messu verði ekki viðhaft. Það verði kynnt í messunum,“ segir í bréfinu.

Eins eru það tilmæli frá biskup að farsæl lausn finnist á því vandamáli sem skapast gæti þegar messuvíni og oblátu er útdeilt í guðsþjónustunni. Ekki sé talið hætt að messugestir bergi af sama bikar eða dýfi brauðinu í vínið í kaleiknum.

„Mikilvægt er síðan að hreinsa eftir notkun, kaleik, patínu og önnur áhöld sem notuð eru við altarisgönguna með sápu og sótthreinsandi efnum.“

Hér má nálgast tilmæli biskups í heild sinni.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×