Erlent

Tveggja turna tal á „ofurþriðjudegi“

Gunnar Reynir Valþórsson og Samúel Karl Ólason skrifa
Bernie Sanders og Joe Biden.
Bernie Sanders og Joe Biden. AP/Patrick Semansky

Ofurþriðjudagurinn svokallaði fer fram í dag. Þá ganga kjósendur Demókrataflokksins að kjörborðinu í fjórtán ríkjum Bandaríkjanna og velja sinn mann í forvali flokksins fyrir komandi forsetakosningar. Nú virðist valið aðallega standa á milli Bernie Sanders og Joe Biden en Biden fékk liðsstyrk í gær þegar þrír áhrifamenn lýstu yfir stuðningi við hann.

Þau Amy Klobuchar, sem sjálf dró framboð sitt til baka í gær, Pete Buttigieg, sem gerði slíkt hið sama í gær og Beto O'Rourke, sem hætti snemma í kapphlaupinu, sögðust öll styðja við bakið á Biden og því virðist slagurinn standa á milli hans og Sanders.

Fleiri eru þó enn í keppninni, þau Elizabeth Warren, Michael Bloomberg og Tulsi Gabbard.

Eins og staðan er nú er Sanders kominn með 60 landsfundarfulltrúa, Biden er með 54 og Warren átta. En í ljósi þess að heil fjórtán ríki efna til kosninga í dag gæti staðan þó breyst töluvert á morgun þar sem heilir 1344 fulltrúar eru í boði.

Hingað til er einungis búið að veita 155 landsfundarfulltrúa.

Helsta markmið Biden í dag er að ná í hælana á Sanders sem hefur náð mikilli velgengni í forvalinu. Sigur Biden í Suður-Karólínu hleypti nýju lífi í framboð hans eftir slæmt gengi í upphafi forvalsins. Sanders þykir lang líklegastur til að sigra í Kaliforníu, stærsta ríki dagsins, en þeir mælast um það bil jafnir í Texas.

415 landsfundarfulltrúar eru í boði í Kaliforníu og 228 í Texas.

Starfsmenn framboðs Biden og stuðningsmenn hans þykjast vissir um að Biden muni ganga vel í dag og vísa sérstaklega til þess að fjölbreytni er mikil í ríkjunum þar sem forvalið fer fram, miðað við þau þar sem forvalið hefur þegar farið fram.

Þeir eru þó ekki þeir einu sem eru að bjóða sig fram, eins og áður hefur komið fram. Í dag verður í fyrsta sinn sem Bloomberg verður á kjörseðlum í forvalinu, eftir að hann er búinn að verja gífurlegu magni fjár í kosningabaráttuna og auglýsingar.

Þá hefur auðjöfurinn varið miklum tíma í Alabama, Arkansas, Norður-Karólínu, Virginíu, Tennessee og Texas og vonast hann til þess að ná sigri í minnst einu ríkjanna.


Tengdar fréttir

Enginn bilbugur á Bloomberg

Forsetaframbjóðandinn og fyrrum borgarstjóri New York, Mike Bloomberg segist ekki ætla að draga sig úr baráttunni í forvali Demókrataflokksins fyrir forsetakosningarnar í nóvember.

Velgdu Sanders undir uggum í kappræðum

Mótframbjóðendur Bernie Sanders í forvali demókrata vöruðu við því að hann myndi lúta í gras fyrir Trump forseta í kosningum í haust verði Sanders útnefndur frambjóðandi flokksins.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×