Enski boltinn

Sportpakkinn: Átján ára Skoti stal senunni þegar Chelsea vann Liverpool

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Mohamad Salah og Roberto Firmino sækja að Billy Gilmour í leik Chelsea og Liverpool í gær.
Mohamad Salah og Roberto Firmino sækja að Billy Gilmour í leik Chelsea og Liverpool í gær. vísir/getty

Chelsea lagði Liverpool að velli, 2-0, á Stamford Bridge í 16-liða úrslitum ensku bikarkeppninnar í gær. Skotinn ungi Billy Gilmour skaust þar fram á sjónarsviðið með góðri frammistöðu.

Sheffield United og Newcastle United komust einnig áfram í 8-liða úrslitin í gær. Arnar Björnsson fór yfir leiki gærkvöldsins í ensku bikarkeppninni.

Liverpool hafði unnið báða leikina gegn Chelsea á leiktíðinni og knattspyrnustjóri liðsins, Jürgen Klopp, gerði sjö breytingar frá tapleiknum gegn Watford í deildinni um helgina.

Á 13. mínútu skaut Willian að marki Liverpool. Adrián í markinu misreiknaði flugið á boltanum og Chelsea komið yfir. Um miðjan seinni hálfleikinn tók Ross Barkley mikinn sprett upp völlinn og átti skot sem Adrián réði ekki við. Liverpool hefur núna tapað þrisvar í síðustu fjórum leikjum sínum. Áður en liðið tapaði fyrir Atlético Madrid í meistaradeildinni höfðu Liverpool-menn haldið hreinu í ellefu af 13 leikjum en fengið á sig átta mörk í síðustu þremur leikjum.

Átján ára Skoti, Billy Gilmour, stal senunni á Brúnni í gærkvöldi. Hann hóf feril sinn hjá Glasgow Rangers en fór til Chelsea skömmu eftir 16 ára afmælisdaginn. Fyrir leikinn í gær hafði hann aðeins spilað í 281 mínútu með aðalliði Lundúnaliðsins.

Fyrrverandi leikmaður Chelsea, Cesc Fábregas, fór fögrum orðum um strákinn á samfélagsmiðlum eftir leikinn. Gilmour er búinn að stúdera myndbönd af Fábregas sem er fyrirmynd hans á fótboltavellinum. Hann var hógvær í sjónvarpsviðtali eftir leikinn.

„Þetta var frábær leikur. Við lékum mjög vel og unnum. Nýttum okkar tækifæri og erum komnir í næstu umferð. Það er gott. Ég naut þess að spila fyrir framan stuðningsmenn okkar á heimavelli. Það var æðislegt,“ sagði Gilmour eftir leikinn.

Knattspyrnustjórinn Frank Lampard var eðlilega ánægður með frammistöðu stráksins.

„Ég treysti Billy. Ég man þegar hann kom inná í jafnteflisleik við Sheffield United þá voru menn að pæla í þessum strák sem leit út fyrir að vera 15 ára. Einhver efaðist um að hann ætti heima í liðinu. Við höfum engar áhyggjur þrátt fyrir að hann sé ekki hár á vellinum er hann með mikinn persónuleika og er sannarlega mjög efnilegur,“ sagði Lampard. 

Miguel Almirón skoraði tvö mörk í sigri Newcastle á West Brom.vísir/getty

Newcastle komst í 8-liða úrslit bikarkeppninnar í fyrsta sinn í 14 ár með því að vinna West Brom á The Hawthorns, 2-3.

Á 33. mínútu sendi Allan Saint-Maximin inn fyrir vörn West Brom og Miguel Almirón. Rétt áður en flautað var til leikhlés skoraði Almiorón annað mark sitt og Newcastle 0-2 yfir í hálfleik. Paragvæinn er greinilega vel stemdur í bikarnum. Þetta var fjórða mark hans í fimm leikjum í bikarkeppninni en hann hefur aðeins skorað tvö mörk í 24 leikjum í ensku úrvalsdeildinni.

Newcastle hefur unnið bikarinn sex sinnum en 65 ár eru frá því að norðamennirnir unnu titilinn síðast. Stuðningsmennirnir fögnuðu þriðja markinu í byrjun seinni hálfleiks. Austurríkismaðurinn Valentino Lazaro, lánsmaður frá Inter, skoraði þá eftir mistök Jonathans Bond í marki Albion.

West Brom, sem er á toppi B-deildarinnar, gafst ekki upp. Matthew Phillips skoraði 17 mínútum fyrir leikslok. Það var allt annar bragur á liði heimamanna í seinni hálfleik og í uppbótartíma lagði Kyle Edwards upp mark fyrir Kenneth Zohore. 

Glæsilegur sprettur hjá Edwards, einum af fjölmörgum efnilegum leikmönnum sem koma úr akademíu Albion. Newcastle vann 2-3 og West Brom getur einbeitt sér að því að tryggja sér sæti í úrvalsdeildinni á næstu leiktíð.

Billy Sharp skorar sigurmark Sheffield United gegn Reading.vísir/getty

Sheffield United hefur sannarlega komið á óvart í vetur. Liðið varð í 2. sæti í B-deildinni á síðustu leiktíð og er núna í 8. sæti úrvalsdeildarinnar. Eddie McGoldrick kom United yfir á 2. mínútu þegar hann skallaði sendingu Bens Osborne í mark Reading. Þetta var fyrsta mark hans frá í apríl.

Tveimur mínútum fyrir leikhlé fékk Reading vítaspyrnu þegar George Baldock braut á Andrew Rinomhota. Rúmeninn George Puskas skoraði úr vítaspyrnunni. Hann verður líklega í rúmenska landsliðinu gegn Íslendingum á Laugardalsvelli 26. mars. Reading er í 16. sæti B-deildarinnar og hélt jöfnu þar til í framlengingunni.

Þá skallaði Billy Sharp fyrirgjöf Luke Freeman í markið og kom Sheffield United í 1-2. Gamli markahrókurinn er lunkinn og er ótrúlega þefvís á marktækifærin. Litlu munaði að Reading jafnaði metin í lokin er Pelé skaut í stöngina. Lokatölur 1-2, Sheffield United í vil.

Fréttina í heild sinni má sjá hér fyrir neðan.

Klippa: Sportpakkinn: Chelsea vann Liverpool á Brúnni

 


Tengdar fréttir

Klopp hefur engar áhyggjur

Eftir að hafa flogið hátt í allan vetur hefur gefið á bátinn hjá Liverpool sem hefur tapað þremur af síðustu fjórum leikjum sínum í öllum keppnum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×