Erlent

Assad kveðst hissa á afstöðu Tyrkja

Þórgnýr Einar Albertsson skrifar
Bashar al-Assad, forseti Sýrlands.
Bashar al-Assad, forseti Sýrlands. Vísir/AP

Vopnahlé tók gildi í norðvesturhluta Sýrlands í nótt. Átökin á svæðinu höfðu verið afar hörð en sýrlenski stjórnarherinn hefur sótt að Idlib, síðasta stóra vígi uppreisnarmanna.

Tyrkir hafa barist við hlið uppreisnarmanna undanfarnar vikur á meðan Rússar eru helstu bandamenn ríkisstjórnar Bashars al-Assad Sýrlandsforseta. Recep Tayyip Erdogan Tyrklandsforseti og Vladímír Pútín Rússlandsforseti áttu því maraþonfund í Moskvu í gær þar sem þeir sammældust um vopnahlé og sex kílómetra breitt öryggissvæði.

„Á meðan þessu stendur áskilja Tyrkir sér rétt til þess að hefna allra árása Sýrlandsstjórnar af fullum krafti,“ sagði Erdogan þó á blaðamannafundi.

Assad tjáði sig um stöðu mála í viðtali við rússneska ríkismiðilinn RTR og sagðist forviða á því hvers vegna Tyrkir styddu ekki Sýrlandsstjórn heldur tækju sér stöðu með uppreisnarmönnum, sem Assad kallaði hryðjuverkamenn.

„Vitaskuld álítum við Tyrki bræðraþjóð okkar. Ég spyr Tyrki því: Hvers vegna stofnið þið til átaka við Sýrland? Hvers vegna eru tyrkneskir ríkisborgarar að deyja? Hvað gerðu Sýrlendingar Tyrkjum, fyrir stríð eða á meðan því stendur? Ekkert. Það gerðist ekkert.“

Assad gagnrýndi Tyrki jafnframt fyrir þá ákvörðun að hindra ekki lengur för flóttamanna til Grikklands. Sagði að með því væru Tyrkir að reyna að þvinga Evrópusambandið til að skerast í leikinn í Sýrlandi.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×