Erlent

Ekki farið fram á dauðarefsingu í máli ISIS Bítlanna

Andri Eysteinsson skrifar
Tveir af fjórum meðlimum Bítla hryðjuverkasamtakanna ISIS.
Tveir af fjórum meðlimum Bítla hryðjuverkasamtakanna ISIS. Vísir/AP

Bandaríkjastjórn hefur tilkynnt þeirri bresku að ekki verði sóst eftir því að tveir vígamenn Íslamska ríkisins, sem þekktir hafa verið undir viðurnefninu Bítlarnir, verði dæmdir til dauða.

Mennirnir tveir, Alexanda Kotey og Elshafee Elsheikh, voru hluti af fjögurra manna teymi sem kallaðir voru Bítlarnir vegna breska hreimsins og eru þeir grunaðir um að hafa staðið að baki fjölmörgum aftökum sem sumar hverjar hafa ratað á internetið. CNN greinir frá.

Dómsmálaráðherra Bandaríkjanna, William Barr, tilkynnti innanríkisráðherra Bretlands, Priti Patel, frá ákvörðun Bandaríkjanna í bréfi í dag. „Ég skrifa þetta bréf til þess fullvissa bresk stjórnvöld um að ef þau aðstoða okkur í málaferlum, munu Bandaríkin ekki fara fram á dauðadóm yfir Alexanda Kotey eða El Shafee Elsheikh,“ skrifaði Barr.

ISIS Bítlarnir fjórir voru sviptir breskum ríkisborgararétti árið 2015 en þremur árum seinna voru Kotey og Elsheikh handsamaðir. Bresk stjórnvöld vilja ekki rétta yfir þeim þar sem að þeir teljast ekki lengur breskir ríkisborgarar en þeir eru í haldi Bandarískra hersveita í Írak.

Bresk stjórnvöld hafa þegar sett Bandaríkjunum það skilyrði að ef mennirnir verði sendir í fangelsið í Guantanamóflóa muni breskt stjórnvöld ekki veita Bandaríkjamönnum öll þau gögn sem óskað verður eftir.

Einn af ISIS bítlunum, Jihadi John, lést í loftárás Bandaríkjamanna árið 2015 og hefur hinn fjórði verið handsamaður og er mál hans fyrir tyrkneskum dómstólum.Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.