Erlent

Hafa samið við Talibana um frið

Samúel Karl Ólason skrifar
Mike Pompeo, utanríkisráðherra Bandaríkjanna.
Mike Pompeo, utanríkisráðherra Bandaríkjanna. AP/Andrew Caballero-Reynolds

Bandaríkin hafa gert samkomulag við Talibana um að draga úr átökum í ríkinu stríðshrjáða á næstu sjö dögum. Svo verði skrifað undir friðarsáttmála að því tímabili loknu. Tímabil þetta mun hefjast í kvöld og standa yfir í sjö daga.

Til stendur að skrifa undir friðarsáttmála í Katar þann 29. febrúar næstkomandi.

Sá sáttmáli mun opna á brottflutning hermanna Bandaríkjanna frá Afganistan en stríðið þar er það lengsta í sögu Bandaríkjanna.

Mike Pompeo, utanríkisráðherra Bandaríkjanna, segir að um mikilvægt skref í átt að langvarandi friði sé um að ræða.

Þrátt fyrir þessar yfirlýsingar er framhaldið alls ekki ljóst. Pompeo sagði í tilkynningu að viðræður innan Afganistan myndu hefjast á næstunni en hann tók ekki fram hverjir myndu taka þátt í þeim.

Stjórnvöld Afganistan hafa enn ekki fengið að koma að viðræðunum með nokkrum hætti en Talibanar hafa neitað að ræða við ríkisstjórnina. Yfirkjörstjórn Afganistan lýsti því yfir nýverið að Ashraf Ghani hefði unnið forsetakosningarnar í september. Andstæðingur hans hefur þó fordæmt kosningarnar og það hafa Talibanar gert líka.

Stríðið í Afganistan hófst árið 2001, þegar Bandaríkin gerðu innrás í landið í kjölfar hryðjuverkaárásanna þann 11. september. Talibanar studdu dyggilega við bakið á al-Qaeda og veittu þeim skjól í Afganistan.

Þegar mest var, árið 2010, voru um hundrað þúsund bandarískir hermenn í Afganistan.Athugið. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Vísir hvetur lesendur til að halda sig við málefnalega umræðu. Einnig áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi eða ósæmilegar athugasemdir og ummæli þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.