Innlent

Mælir með að sveitarstjórn veiti framkvæmdaleyfi um Teigsskóg

Kristján Már Unnarsson skrifar
Úr Teigsskógi við Þorskafjörð. Með þeirri veglínu færist Vestfjarðavegur af tveimur hálsum, Hjallahálsi og Ódrjúgshálsi, og liggur í staðinn um láglendi.
Úr Teigsskógi við Þorskafjörð. Með þeirri veglínu færist Vestfjarðavegur af tveimur hálsum, Hjallahálsi og Ódrjúgshálsi, og liggur í staðinn um láglendi. Vísir/Egill Aðalsteinsson.

Skipulags-, húsnæðis- og hafnarnefnd Reykhólahrepps samþykkti á fundi sínum í fyrradag að leggja til við sveitarstjórn að samþykkja umsókn Vegagerðarinnar um leyfi fyrir Vestfjarðavegi samkvæmt leið Þ-H, það er um Teigsskóg. Tveir nefndarmenn af þremur, þau Jóhanna Ösp Einarsdóttir og Eiríkur Kristjánsson, samþykktu að vísa erindinu til afgreiðslu sveitarstjórnar en Ingimar Ingimarsson oddviti sat hjá. 

Í fundargerð kemur fram að umsókn Vegagerðarinnar um framkvæmdaleyfi, sem dagsett er 16. desember 2019, fylgi hönnunargögn og aðrar upplýsingar í samræmi við reglugerð um framkvæmdaleyfi.

Teigsskógarleiðin styttir Vestfjarðaveg um 22 kílómetra. Veglínan liggur þvert yfir mynni Gufufjarðar og Djúpafjarðar og yfir Þorskafjörð með þverun á móts við Þórisstaði. Teikning/Vegagerðin.

„Fyrirhuguð framkvæmd felst í byggingu Vestfjarðavegar frá Bjarkalundi að Skálanesi, byggingu nýs Djúpadalsvegar í austanverðum Djúpafirði og endurbyggingu Gufudalsvegar í vestanverðum Gufufirði, ásamt efnistöku fyrir framkvæmdirnar. 

Lagðar eru fram umsagnir Umhverfisstofnunar, Náttúrufræðistofnunar Íslands og umhverfis- og náttúruverndarnefndar Reykhólahrepps um framkvæmdaleyfisumsókn. Brugðist hefur verið við umsögnum með tillögum að frekari skilmálum fyrir framkvæmdum,“ segir í fundargerð nefndarinnar. 

Þar segir ennfremur að framkvæmdir séu í samræmi við Aðalskipulag Reykhólahrepps og gögn uppfylli þær kvaðir sem komi fram í reglugerð um framkvæmdaleyfi. 

Líklegt þykir að sveitarstjórn Reykhólahrepps samþykki framkvæmdaleyfið á fundi sínum næstkomandi þriðjudag. Sú ákvörðun er kæranleg til Úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála. 

Bergþóra Þorkelsdóttir vegamálastjóri vonaðist til þess í viðtali 22. janúar 2019, þegar Reykhólahreppur samþykkti Teigsskógarleiðina, að framkvæmdir gætu hafist á vormánuðum 2020, eins og heyra má hér í frétt Stöðvar 2:


Tengdar fréttirAthugið. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Vísir hvetur lesendur til að halda sig við málefnalega umræðu. Einnig áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi eða ósæmilegar athugasemdir og ummæli þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.