Innlent

Hreppsnefnd samþykkti veglínu um Teigsskóg inn á aðalskipulag

Kristján Már Unnarsson skrifar
Frá Reykhólum.
Frá Reykhólum. Stöð 2/Egill Aðalsteinsson.
Hreppsnefnd Reykhólahrepps samþykkti á fundi sínum nú síðdegis, með þremur atkvæðum gegn tveimur, breytingu á aðalskipulagi þess efnis að Vestfjarðavegur liggi um Teigsskóg. Fundurinn, sem hófst klukkan 15, stóð enn yfir laust fyrir fréttir Stöðvar 2 en samkvæmt upplýsingum Karls Kristjánssonar, hreppsnefndarmanns á fundinum, féllu atkvæði á sama veg og í janúar.

Sjá þessa frétt: Teigsskógur varð ofan á 

Meirihluti sveitarstjórnar samþykkti þá að vinna að því að veglína um Teigsskóg færi inn á aðalskipulag. Þær Árný Huld Haraldsdóttir, Embla Dögg Jóhannsdóttir og Jóhanna Ösp Einarsdóttir mynduðu meirihluta um Teigsskógarleið en þeir Ingimar Ingimarsson oddviti og Karl Kristjánsson vildu að svokölluð R-leið um Reykhólaþorp yrði valin. 

Á fundi skipulags-, hafnar- og húsnæðisnefndar Reykhólahrepps í síðustu viku lögðu þeir Ingimar og Karl til við sveitarstjórn að fallið yrði frá því að setja Teigskógarleiðina á aðalskipulag. Jóhanna Ösp taldi hins vegar að brugðist hefði verið við öllum athugasemdum sem borist hefðu vegna aðalskipulagsbreytingarinnar og lagði til að tillögunni yrði vísað til sveitarstjórnar til samþykktar.

Magnús Valur Jóhannsson, framkvæmdastjóri mannvirkjasviðs Vegagerðarinnar, bendir á svæðið þar sem deilt er um framtíðarlegu Vestfjarðavegar.Stöð 2/Egill Aðalsteinsson.
Samkvæmt upplýsingum frá Vegagerðinni stefnir hún að því að sækja um framkvæmdaleyfi til sveitarstjórnar fyrir Teigsskógarleiðinni sem allra fyrst, eða um leið og skipulagið hefur hlotið formlega staðfestingu Skipulagsstofnunar. Magnús Valur Jóhannsson, framkvæmdastjóri mannvirkjasviðs Vegagerðarinnar, segir markmiðið að bjóða verkið út fljótlega eftir áramót svo að framkvæmdir geti hafist í vor. 

Útgáfa framkvæmdaleyfis er kæranleg til Úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála.


Tengdar fréttir

Reykhólahreppur auglýsir veglínu um Teigsskóg

Reykhólahreppur hefur auglýst aðalskipulagsbreytingu vegna legu Vestfjarðavegar um Gufudalssveit. Auglýsingin er birt fimm mánuðum eftir að hreppsnefnd samþykkti að velja Teigsskógarleiðina.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×