Innlent

Vonast til að geta boðið út Teigsskógarleið fyrir árslok

Kristján Már Unnarsson skrifar
Bergþóra Þorkelsdóttir vegamálastjóri.
Bergþóra Þorkelsdóttir vegamálastjóri. Stöð 2/Sigurjón Ólason.
Vegamálastjóri vonast til að geta boðið út sjö milljarða króna framkvæmdir við Vestfjarðaveg um Teigsskóg fyrir árslok eftir að hreppsnefnd Reykhólahrepps samþykkti þá veglínu í dag með þremur atkvæðum gegn tveimur. Þetta kom fram í fréttum Stöðvar 2.

Hér má sjá leiðirnar tvær sem tekist var á um fyrir framtíðarlegu Vestfjarðavegar.Grafík/Hlynur Magnússon.
Á endanum stóð valið á milli ÞH-leiðar um Teigsskóg og R-leiðar um Reykhóla.

Niðurstaðan var sú að karlarnir í hreppsnefndinni, þeir Ingimar Ingimarsson oddviti og Karl Kristjánsson, kusu R-leið og urðu undir, en konurnar þrjár, þær Árný Huld Haraldsdóttir, Embla Dögg Jóhannsdóttir og Jóhanna Ösp Einarsdóttir, mynduðu meirihluta um Teigsskógarleið.

Hreppsnefndarmenn koma af fundi samgönguráðherra í gær. Fremst er Ingimar Ingimarsson en síðan koma Árný Huld Haraldsdóttir, Embla Dögg Jóhannsdóttir og Jóhanna Ösp Einarsdóttir.Stöð 2/Egill Aðalsteinsson.
Í höfuðstöðvum Vegagerðarinnar í Reykjavík fylgdust menn spenntir með fréttum að vestan og vegamálastjóri segir að þar gleðjist menn yfir því að geta haldið áfram með verkefnið. 

„Við bara erum ánægð með það. Það er gríðarlega mikilvægt að ná að leggja þennan Vestfjarðaveg fyrir Vestfirðinga alla og ég bara vona að auðnan verði með þeim þannig að það takist,“ segir Bergþóra Þorkelsdóttir vegamálastjóri.

Veglína yfir Djúpafjörð, milli Gróness og Hallsteinsness, samkvæmt Þ-H leið um Teigsskóg.Grafík/Vegagerðin.
Bergþóra segir næstu skref þau að Reykhólahreppur klári aðalskipulagið, sem Skipulagsstofnun þurfi svo að staðfesta. Hún vonist til að Vegagerðin geti sótt um framkvæmdaleyfi eftir 14-16 vikur og að hugsanlegum kærumálum vegna þess verði lokið fyrir áramót. 

„Við gætum þá, ef Guð lofar og allt gengur vel, byrjað framkvæmdir, - eða boðið þetta út í lok ársins og byrjað framkvæmdir á vormánuðum 2020. Það væri það sem við sæjum þá fyrir okkur.“ 

Brú kemur yfir Þorskafjörð innanverðan, samkvæmt ÞH-leið um Teigsskóg.Grafík/Vegagerðin.
Þetta er eitt stærsta verkið á samgönguáætlun næstu fimm ára upp á nærri sjö milljarða króna. Teigsskógarleiðin felur í sér um 20 kílómetra styttingu Vestfjarðavegar.  Gert er ráð fyrir að þrír firðir verði brúaðir; Þorskafjörður, Djúpifjörður og Gufufjörður. En hvenær verður vegurinn tilbúinn? 

„2023 circa. Og þá erum við bara að gefa okkur að hlutirnir gangi vel,“ svarar Bergþóra vegamálastjóri. 

Hér má sjá frétt Stöðvar 2:


Tengdar fréttir
Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.