Fótbolti

Sportpakkinn: Fólk mun átta sig betur á styrkleikum Rúmeníu

Sindri Sverrisson skrifar
Freyr Alexandersson og Erik Hamrén hafa mánuð til stefnu til undirbúnings fyrir leikinn við Rúmeníu.
Freyr Alexandersson og Erik Hamrén hafa mánuð til stefnu til undirbúnings fyrir leikinn við Rúmeníu. Vísir/Getty

Freyr Alexandersson, aðstoðarlandsliðsþjálfari karla í fótbolta, gefur ekki mikið fyrir umræðu um að það að vinna landslið Rúmeníu í EM-umspilinu eigi að vera góður möguleiki og jafnvel „létt verk“.

„Við höfum oft orðið varir við slíka umræðu þegar kemur að þjóðum sem hafa kannski ekki á að skipa mörgum leikmönnum sem eru fyrir framan augu áhangenda um hverja helgi, í ensku úrvalsdeildinni fyrst og fremst,“ sagði Freyr í samtali við Guðjón Guðmundsson í Sportpakkanum á Stöð 2. Viðtalið má sjá hér að neðan.

Ísland og Rúmenía mætast á Laugardalsvelli, svo lengi sem það verður hægt á þessum árstíma, þann 26. mars í undanúrslitum EM-umspilsins. Sigurliðið mætir Búlgaríu eða Ungverjalandi á útivelli í úrslitaleik fimm dögum síðar.

Freyr hefur að sjálfsögðu skoðað rúmenska liðið vel og er vel meðvitaður um þá efnilegu kynslóð leikmanna sem þar er að taka við keflinu:

„Þetta eru strákar sem eru að taka næstu skref á sínum ferli, allir að spila á góðum stað og hafa gríðarlega hæfileika, og stóðu sig stórkostlega á U21-mótinu síðasta sumar. Við skulum því stíga varlega til jarðar og bera virðingu fyrir andstæðingnum, sem við gerum að sjálfsögðu alltaf. Þegar fer að nálgast leikinn, það er mikil eftirvænting í þjóðfélaginu, þá verður mikið af fréttum fram að leik og þá mun fólk átta sig betur á styrkleikum og auðvitað veikleikum rúmenska liðsins. En við vitum nákvæmlega út í hvað við erum að fara og þetta verður gríðarlega barátta. En, kannski ótrúlegt en satt, þá er Laugardalsvöllurinn gríðarlegt vígi fyrir okkur,“ sagði Freyr.

Klippa: Freyr kallar eftir virðingu fyrir Rúmeníu

Tengdar fréttir

Sportpakkinn: Ekki alveg réttar fréttir af Kolbeini

Það er um mánuður í leik Íslands og Rúmeníu í umspili um laust sæti á EM og Freyr Alexandersson aðstoðarlandsliðsþjálfari er nokkuð sáttur með standið á leikmönnum liðsins.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×