Liverpool enn nær titlinum með aðstoð Fabianski

Sindri Sverrisson skrifar
Trent Alexander-Arnold og Sadio Mané fagna í kvöld.
Trent Alexander-Arnold og Sadio Mané fagna í kvöld. vísir/getty

Liverpool er komið með 22 stiga forskot á toppi ensku úrvalsdeildarinnar eftir 3-2 sigur gegn West Ham á Anfield í kvöld. West Ham var yfir þegar 25 mínútur voru til leiksloka.

Georginio Wijnaldum kom Liverpool yfir snemma leiks með skalla eftir fyrirgjöf Trent Alexander-Arnold, en Lukasz Fabianski hefði getað gert betur í marki West Ham. Issa Diop jafnaði metin strax á 12. mínútu með skalla eftir hornspyrnu Robert Snodgrass og var staðan 1-1 í hálfleik.

Pablo Fornals kom svo West Ham yfir á 54. mínútu með skoti úr teignum, en Mohamed Salah jafnaði metin með skoti eftir sendingu frá Andy Robertson. Boltinn fór reyndar beint á Fabianski og skotið var laust, en Pólverjinn missti boltann einhvern veginn í gegnum klofið. Það var svo Sadio Mané sem tryggði Liverpool sigur tíu mínútum fyrir leikslok, eftir aðra stoðsendingu Alexander-Arnold. Mané var nálægt því að bæta við öðru marki en dæmdur rangstæður.

Fyrirliðinn Jordan Henderson verður ekki með Liverpool næstu vikurnar vegna meiðsla og James Milner var hlíft til öryggis í kvöld, af ótta við meiðsli. Það kom ekki að sök og Liverpool er með 79 stig eftir aðeins 27 leiki en West Ham er með 24 stig í fallsæti, stigi á eftir Aston Villa sem er í næsta örugga sæti.

Bein lýsing

Leikirnir
    Athugið. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Vísir hvetur lesendur til að halda sig við málefnalega umræðu. Einnig áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi eða ósæmilegar athugasemdir og ummæli þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni.
    Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.