Liverpool enn nær titlinum með aðstoð Fabianski

Sindri Sverrisson skrifar
Trent Alexander-Arnold og Sadio Mané fagna í kvöld.
Trent Alexander-Arnold og Sadio Mané fagna í kvöld. vísir/getty

Liverpool er komið með 22 stiga forskot á toppi ensku úrvalsdeildarinnar eftir 3-2 sigur gegn West Ham á Anfield í kvöld. West Ham var yfir þegar 25 mínútur voru til leiksloka.

Georginio Wijnaldum kom Liverpool yfir snemma leiks með skalla eftir fyrirgjöf Trent Alexander-Arnold, en Lukasz Fabianski hefði getað gert betur í marki West Ham. Issa Diop jafnaði metin strax á 12. mínútu með skalla eftir hornspyrnu Robert Snodgrass og var staðan 1-1 í hálfleik.

Pablo Fornals kom svo West Ham yfir á 54. mínútu með skoti úr teignum, en Mohamed Salah jafnaði metin með skoti eftir sendingu frá Andy Robertson. Boltinn fór reyndar beint á Fabianski og skotið var laust, en Pólverjinn missti boltann einhvern veginn í gegnum klofið. Það var svo Sadio Mané sem tryggði Liverpool sigur tíu mínútum fyrir leikslok, eftir aðra stoðsendingu Alexander-Arnold. Mané var nálægt því að bæta við öðru marki en dæmdur rangstæður.

Fyrirliðinn Jordan Henderson verður ekki með Liverpool næstu vikurnar vegna meiðsla og James Milner var hlíft til öryggis í kvöld, af ótta við meiðsli. Það kom ekki að sök og Liverpool er með 79 stig eftir aðeins 27 leiki en West Ham er með 24 stig í fallsæti, stigi á eftir Aston Villa sem er í næsta örugga sæti.

Bein lýsing

Leikirnir






    Fleiri fréttir

    Sjá meira