Erlent

Mikið um dýrðir í fyrstu opinberu heimsókn Trump til Indlands

Kjartan Kjartansson skrifar
Modi leiðir Trump-hjónin út á sviðið á Sardar Patel-leikvanginum í Ahmedabad í dag.
Modi leiðir Trump-hjónin út á sviðið á Sardar Patel-leikvanginum í Ahmedabad í dag. AP/Alex Brandon

Áætlað er að um hundrað þúsund manns hafi fyllt krikketvöll í Ahmedabad á Indland þegar Narendra Modi forsætisráðherra og Donald Trump Bandaríkjaforseti héldu þar sameiginlegan útifund við upphaf opinberrar heimsóknar þess síðarnefnda. Tekið hefur verið á móti Trump með kostum og kynjum á Indlandi.

Forsetarnir jusu hvor annan lofi fyrir framan mannfjöldann á Motera-leikvanginum í Gujarat, heimaríki Modi forsætisráðherra, og lögðu áherslu á náin tengsl ríkjanna tveggja.

„Allir elska hann en ég skal sko segja ykkur það að hann er harður í horn að taka!“ sagði Trump um indverska forsætisráðherrann.

Mikið var um dýrðir á útifundinum. Tónlistarmenn á kameldýrum og Bollywood-smellir heyrðust í bland við lög sem framboð Trump spilar á kosningafundum sínum, þar á meðal ýmis lög með breska söngvaranum Elton John, að sögn AP-fréttastofunnar. Margir voru með grímur með andlitum Trump og Modi.

Breska ríkisútvarpið BBC segir að Trump hafi átt erfitt með að bera fram indversk nöfn í ræðu sinni. Þannig kallaði hann meðal annars Vedas, helga ritningu hindúa, „Vestas“. Margir yfirgáfu leikvanginn eftir að Modi lauk máli sínu undir ræðu Trump.

Fyrr um daginn höfðu hundruð þúsundir borgarbúa þyrpst út á götur til að fagna Trump og Modi. Yfirvöld höfðu tjaldað öllu til, þrifið götur og plantað blómum auk þess sem hundruð auglýsingaskilti með andlitum Trump og eiginkonu hans Melaniu skreyttu göturnar.

Trump-hjónin ætla að heimsækja Taj Mahal-grafhýsið í Agra í Indlandsheimsókn sinni sem stendur í einn og hálfan sólarhring. Fyrr í dag skoðuðu þau heimabæ Mahatma Gandí, frelsishetju Indverja, sem fæddist í Gujarat.

Trump spreytti sig á rokki þegar hann heimsótti heimili Gandí.AP/Alex Brandon



Fleiri fréttir

Sjá meira


×