Erlent

Flóðhestar Escobars valda usla í Kólumbíu

Þórgnýr Einar Albertsson skrifar

Þótt eiturlyfjabaróninn Pablo Escobar hafi verið látinn í nærri þrjá áratugi heldur hann áfram að valda usla í heimalandinu Kólumbíu. Escobar var forríkur og nýtti auðæfi sín á margvíslegan hátt.

Á meðal þess undarlegra sem hann keypti voru fjórir flóðhestar sem hann lét flytja til landsins sér til gamans. Skepnurnar dóu þó ekki með húsbónda sínum og eru flóðhestarnir fjórir nú orðnir áttatíu.

Tegundin á engar rætur á svæðinu og hefur raskað lífríkinu í Magdalena-héraði. Nú reynir ríkisstjórnin að takast á við vandann. „Þetta eru villt dýr, frjáls. Þau valda vandræðum í lífríki Magdalena og ýta öðrum tegundum í burtu,“ sagði Gina Serna, dýralæknir á vegum hins opinbera, við AP.

Það eru þó ekki allir óánægðir með dýrin. Flóðhestarnir þykja nokkuð góðir fyrir ferðaþjónustuna á svæðinu. Kaupmaðurinn Yordan Villegas, sem rekur túristaverslun, er hrifinn. „Það er mjög skemmtilegt og áhugavert að sjá þessi dýr á götum bæjarins. Mér finnst að við eigum að halda þeim uppi því þetta hrífur ferðamenn.“Athugið. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Vísir hvetur lesendur til að halda sig við málefnalega umræðu. Einnig áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi eða ósæmilegar athugasemdir og ummæli þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.