Innlent

Sex sveitar­fé­lög fá styrk vegna hruns í ferða­þjónustu

Sylvía Hall skrifar
Sigurður Ingi Jóhannsson, samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra, hefur kynnt skiptinguna fyrir ríkisstjórn.
Sigurður Ingi Jóhannsson, samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra, hefur kynnt skiptinguna fyrir ríkisstjórn. Vísir/Vilhelm

Sigurður Ingi Jóhannsson, samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra, hefur kynnt ríkisstjórn skiptingu 150 milljóna króna fjárveitingar sem sex sveitarfélög munu fá vegna hruns í ferðaþjónustu í kjölfar Covid-19. Framlagið mun fara í að styðja við atvinnulíf og samfélag sveitarfélaganna og styrkja stoðir þeirra.

Mýrdalshreppur, Skaftárhreppur og Skútustaðahreppur munu hvert um sig fá 32 milljónir króna. Bláskógabyggð, Rangárþing eystra og Hornafjörður fá 18 milljónir króna. Er fjárveitingunni ætlað að skapa betri grundvöll fyrir fjölbreyttara atvinnulíf til lengri tíma og stuðla að nýsköpun.

Staða sveitarfélaganna og áskoranir þeirra voru teknar til skoðunar í greinargerð eftir að samantekt Byggðastofnunar gaf vísbendingar um að þessi sveitarfélög kynnu að standa verst að vígi vegna tímabundins hruns í ferðaþjónustu.

Staða sveitarfélaganna var metin innbyrðis við gerð greinargerðarinnar og skoðað hlutfall ferðaþjónustu af atvinnulífi, möguleikar á annarri vinnusókn og framkomin áhrif, t.d. atvinnuleysi og lýðfræðileg samsetning íbúa. Niðurstaðan var sú að Mýrdalshreppur, Skaftárhreppur og Skútustaðahreppur stæðu verst að vígi en að Bláskógabyggð, Rangárþing eystra og Sveitarfélagið Hornafjörður gætu brugðist betur við afleiðingum faraldursins.

Í greinargerðinni kemur fram að atvinnuleysi í þessum sveitarfélögum í júnílok var á bilinu 13 til 34 prósent. Meðaltal atvinnuleysis á landinu öllu á sama tíma var um tíu prósent.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×