Enski boltinn

Toppliðið tapaði á heimavelli | Jón Daði kom af bekknum í jafntefli

Runólfur Trausti Þórhallsson skrifar
Sam Morsy skoraði sigurmark Wigan gegn toppliði WBA í dag.
Sam Morsy skoraði sigurmark Wigan gegn toppliði WBA í dag. Vísir/Getty

Topplið ensku B-deildarinnar, West Bromwich Albion, tapaði óvænt 0-1 á heimavelli gegn Wigan Athletic. Þá spilaði Jón Daði Böðvarsson síðustu 15 mínúturnar í 1-1 jafntefli Millwall og Bristol City. Alls voru 11 leikir í ensku B-deildinni á dagskrá í dag. 

Sam Morsy skoraði sigurmark Wigan á 73. mínútu er liðið lagði WBA á Hawthornes vellinum í dag. Wigan þurfti á sigrinum að halda en liðið er í harðri botnbaráttu. Sigurinn fleytir þeim upp í 19. sæti með 40 stig á  meðan WBA eru enn á toppi deildarinnar með 69 stig, aðeins stigi meira en Leeds United sem valtaði yfir Hull City í hádeginu.

Jón Daði náði ekki að tryggja Millwall sigur er liðið gerði 1-1 jafntefli við Bristol City. Pedro Pereira kom gestunum í Bristol yfir á 10. mínútu leiksins áður en Matt Smith jafnaði metin í upphafi síðari hálfleiks. Fleiri urðu mörkin ekki og eitt stig á lið niðurstaðan. Bæði lið eru í harðri baráttu um að komast í umspil um laust sæti í ensku úrvalsdeildinni.

Bristol er í 7. sæti með 54 stig, aðeins tveimur stigum frá umspilssæti, á meðan Millwall er í 10. sæti með 51 stig.

Fulham heldur svo pressunni á toppliðunum en þeir unnu Preston North End 2-0 á heimavelli í dag. Bæði lið eru í umspilssæti en Fulham ætlar sér eflaust að stela öðru af toppsætunum. David Nugent varð fyrir því óláni að koma Fulham yfir á 58. mínútu en hann leikur með Preston. Aboubakar Kamara tryggði svo sigurinn með marki í uppbótartíma.

Önnur úrslit dagsins

Blackburn Rovers 2-2 Swansea City

Cardiff City 2-2 Brentford

Huddersfield Town 4-0 Charlton Athletic

Luton Town 1-1 Stoke City

Queens Park Rangers 2-2 Birmingham City

Reading 2-0 Barnsley

Sheffield Wednesday 1-3 Derby County


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×