Enski boltinn

Segir að Karius hafi fengið ósanngjarna meðferð eftir mistökin í úrslitaleiknum

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Karim Benzema skorar eftir mistök Loris Karius í úrslitaleik Meistaradeildar Evrópu 2018.
Karim Benzema skorar eftir mistök Loris Karius í úrslitaleik Meistaradeildar Evrópu 2018. vísir/getty

Fyrrverandi samherji Loris Karius segir að markvörðurinn hafi fengið ósanngjarna meðferð eftir úrslitaleik Meistaradeildar Evrópu fyrir tveimur árum.

Karius gerði tvenn slæm mistök í úrslitaleiknum þar sem Liverpool tapaði fyrir Real Madrid, 3-1. Um sumarið keypti Liverpool brasilíska markvörðinn Alisson frá Roma og sendi Karius á tveggja ára lán til Besiktas í Tyrklandi.

Giulio Donati, sem lék með Karius hjá Mainz, vill meina að Liverpool hafi gengið full harkalega fram gegn þýska markverðinum.

„Því miður gerðu fjölmiðlar og fólk í kringum fótboltann mikið úr þessum mistökum. En við megum ekki gleyma því að Liverpool hefði aldrei komist í úrslitaleikinn án Karius,“ sagði Donati í samtali við Tribalfootball.com.

„Hann var ungur leikmaður sem gerði mistök í úrslitaleiknum. Þetta er vissulega mikilvægur leikur en svona getur gerst og það þurrkar ekki út allt það góða sem hann gerði,“ bætti Donati við.

Karius hefur leikið 62 leiki með Besiktas síðan hann kom frá Liverpool 2018.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×