Erlent

Allt að þrjátíu metra háar öldur á Norður-Atlantshafi

Kjartan Kjartansson skrifar
Öldugangur í Blackpool á norðvesturhluta Englands þegar stomurinn Ciara gekk þar yfir um síðustu helgi. Aftur er búist við öflugu óveðri þar í dag.
Öldugangur í Blackpool á norðvesturhluta Englands þegar stomurinn Ciara gekk þar yfir um síðustu helgi. Aftur er búist við öflugu óveðri þar í dag. AP/Peter Byrne

Búist er við úrhellisrigningu og hvassviðri í vestanverðri Evrópu vegna lægðarinnar sem nú ferðast yfir Atlantshafið. Bandaríska veðurstofan segir að ölduhæð gæti náð þrjátíu metrum í Norður-Atlantshafi og vindur náð 41 metra á sekúndu í dag.

Gular viðvaranir taka gildi á Suður- og Suðausturlandi og Vestfjörðum vegna lægðarinnar í dag. Sérstaklega var varað við hættu á sjávarflóðum um landið sunnan- og austanvert vegna lágs loftþrýstings, áhlaðanda og brims.

Stormurinn, sem hefur fengið nafnið Dennis, á að skella á Skotlandi og norðanverðu Englandi um hádegisbilið en áhrifa hans gæti gætt um allt Bretland, að sögn AP-fréttastofunnar. Spáð er allt að 120 sentímetra úrkomu á einstaka stöðum á norðanverðu Englandi.

Flugfélög eins og Easyjet og British Airways hafa þegar fellt niður fjölda ferða til og frá London og aðrir flugvellir og lestarfélög hafa varað við töfum og aflýsingum.

Þetta er önnur helgin í röð sem öflugt óveður gengur yfir Evrópu. Átta manns létu lífið af völdum stormsins Ciöru, þar af tveir á Bretlandi, um síðustu helgi.

Talað hefur verið um að lægðin í dag geti orðið sögulega lág. Í gær var útlit fyrir að þrýstingur í miðju hennar gæti farið niður í 915 hektópasköl (hPa) sem er með því „lægsta sem sést“, að sögn Sveins Gauta Einarssonar, umhverfisverkfræðings hjá Bliku.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×