Innlent

Varað við auknum líkum á sjávarflóðum

Kjartan Kjartansson skrifar
Sjór gekk á land í Garði í gær.
Sjór gekk á land í Garði í gær. Jóhann Issi Hallgrímsson

Auknar líkur eru á sjávarflóðum um landið sunnan- og austanvert í dag vegna lágs loftþrýstings og mikils áhlaðanda og brims. Gular veðurviðvaranir taka gildi fyrir Suðurland, Vestfirði og Suðausturland vegna austlægs hvassviðris eða storms í kringum hádegið.

Útlit er fyrir áframhaldandi vonskuveður víða um landið í dag í kjölfar krapprar lægðar sem olli usla í gær. Spáð er vaxandi austan- og norðaustan átt með 13-20 metrum á sekúndu en hvassara veðri um tíma norðvestantil og syðst á landinu. Víða verður snjókoma, slydda eða rigning með köflum. Úrkomulítið verður þó suðvestanlands.

Á Suðurlandi tekur gul viðvörun gildi klukkan 11:00. Varað er við austan hvassviðri eða stormi með 15-25 metrum á sekúndu. Búast má við snörpum vindhviðum við fjöll. Einkum gæti orðið hvasst undir Eyjafjöllum og varasamt fyrir ökutæki sem taka á sig mikinn vind. Þá er talið að eldingar geti fylgt veðrinu og mikið brim við ströndina.

Á Suðausturlandi tekur viðvörunin gildi klukkan 11:30. Þar er einnig spáð hvassviðri eða stormi með 18-25 metrum á sekúndu og talsverðri rigningu í fyrstu en síðan hægari vindi austast. Varað er við snörpum hviðum undir við fjöll, einkum í Mýrdal og í Öræfum.

Á Vestfjörðum tekur gul viðvörun gildi klukkan 13:00 í dag. Þar er varað við hvassviðri eða stormi með vindhraða á bilinu 15-25 metrum á sekúndu, hvössustu á fjallvegum. Búast má við talsverðri snjókomu með skafrenningi, lélegu skyggni og versnandi akstursskilyrðum.

Í athugasemd veðurfræðings Veðurstofu Íslands frá því í morgun var varað sérstaklega við hættunni á sjávarflóðum. Sjór gekk sums staðar á land í óveðrinu í gær og olli meðal annars skemmdum á íbúðarhúsum í Garði og á golfvellinum í Grindavík.

Draga á úr vindi og úrkomu í kvöld og nótt. Á sunnudag er áfram spáð austlægri átt, víða 5-13 metrum á sekúndu í fyrramálið með dálitlum éljum með suðausturströndinni og á Vestfjörðum.Athugið. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Vísir hvetur lesendur til að halda sig við málefnalega umræðu. Einnig áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi eða ósæmilegar athugasemdir og ummæli þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.