Erlent

Úrhelli og flóð af völdum Dennis á Bretlandseyjum

Kjartan Kjartansson skrifar
Kona reynir að hemja regnhlíf í óveðrinu í Bournemouth á Englandi.
Kona reynir að hemja regnhlíf í óveðrinu í Bournemouth á Englandi. Vísir/EPA

Mánaðarúrkoma féll í sunnanverðu Wales á tveimur sólarhringum um helgina af völdum stormsins Dennis. Varað hefur verið við lífshættulegum flóðum á svæðinu og samgöngur hafa lamast víðar um Bretland.

Alls eru 594 viðvaranir vegna flóða í gildi á Englandi og hafa þær aldrei verið fleiri á einum degi, að sögn The Guardian. Í Suður-Wales er varað við flóðum sem geta verið lífshættuleg mönnum á tveimur stöðum. Veðurstofan gaf út rauða veðurviðvörun vegna úrkomu í fyrsta skipti í fimm ár.

Rauði krossinn hefur varað fólk við að gera ráð fyrir því versta þegar flóð ná hámarki á næstu dögum.

„Búist er við að stormarnir haldi áfram og að vatnsstaðan nái hámarki á mánudag og þriðjudag. Það er mikilvægt að fólk sé búið undir það versta,“ segir Georgie Timmins, neyðarfulltrúi breska Rauða krossins.

Veðurstofa Bretlands segir að tæpir 133 millímetrar regns hafi mælst í Cray-verndarsvæðinu í Powys í Suður-Wales frá klukkan sjö á föstudagssmorgun til klukkan átta á sunnudagsmorgun. Meðalúrkoma í Wales í febrúarmánuði er 110,8 millímetrar. Spáð er áframhaldandi úrkomu á Englandi og Wales í dag.

Breska ríkisútvarpið BBC segir að þegar sé unnið að því að bjarga íbúum í Powys eftir að vatn flæddi inn í hús þeirra. Yfirvöld í suðurhluta Wales og í Herefordskíri á Englandi hafa lýst yfir viðbúnaðarstigi vegna flóða og aurskriðna.


Tengdar fréttirAthugið. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Vísir hvetur lesendur til að halda sig við málefnalega umræðu. Einnig áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi eða ósæmilegar athugasemdir og ummæli þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.