Erlent

Úrhelli og flóð af völdum Dennis á Bretlandseyjum

Kjartan Kjartansson skrifar
Kona reynir að hemja regnhlíf í óveðrinu í Bournemouth á Englandi.
Kona reynir að hemja regnhlíf í óveðrinu í Bournemouth á Englandi. Vísir/EPA

Mánaðarúrkoma féll í sunnanverðu Wales á tveimur sólarhringum um helgina af völdum stormsins Dennis. Varað hefur verið við lífshættulegum flóðum á svæðinu og samgöngur hafa lamast víðar um Bretland.

Alls eru 594 viðvaranir vegna flóða í gildi á Englandi og hafa þær aldrei verið fleiri á einum degi, að sögn The Guardian. Í Suður-Wales er varað við flóðum sem geta verið lífshættuleg mönnum á tveimur stöðum. Veðurstofan gaf út rauða veðurviðvörun vegna úrkomu í fyrsta skipti í fimm ár.

Rauði krossinn hefur varað fólk við að gera ráð fyrir því versta þegar flóð ná hámarki á næstu dögum.

„Búist er við að stormarnir haldi áfram og að vatnsstaðan nái hámarki á mánudag og þriðjudag. Það er mikilvægt að fólk sé búið undir það versta,“ segir Georgie Timmins, neyðarfulltrúi breska Rauða krossins.

Veðurstofa Bretlands segir að tæpir 133 millímetrar regns hafi mælst í Cray-verndarsvæðinu í Powys í Suður-Wales frá klukkan sjö á föstudagssmorgun til klukkan átta á sunnudagsmorgun. Meðalúrkoma í Wales í febrúarmánuði er 110,8 millímetrar. Spáð er áframhaldandi úrkomu á Englandi og Wales í dag.

Breska ríkisútvarpið BBC segir að þegar sé unnið að því að bjarga íbúum í Powys eftir að vatn flæddi inn í hús þeirra. Yfirvöld í suðurhluta Wales og í Herefordskíri á Englandi hafa lýst yfir viðbúnaðarstigi vegna flóða og aurskriðna.

Tengd skjöl


Tengdar fréttir
Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.