Erlent

Vopnaðir menn rændu 600 rúllum af klósettpappír

Samúel Karl Ólason skrifar
Fjölmiðlar ytra segja íbúa Hong Kong hafa keypt gífurlegt magn af klósettpappír á undanförnum dögum, af ótta við skort vegna Covid-19 veirunnar, þrátt fyrir að yfirvöld Hong Kong segja enga þörf á því.
Fjölmiðlar ytra segja íbúa Hong Kong hafa keypt gífurlegt magn af klósettpappír á undanförnum dögum, af ótta við skort vegna Covid-19 veirunnar, þrátt fyrir að yfirvöld Hong Kong segja enga þörf á því. AP/Vincent Yu

Þrír grímuklæddir menn rændu 600 rúllum af klósettpappír af sendli í Hong Kong í nótt en klósettpappír þykir nú verðmætur vegna meints skorts og óðagots í borginni. Einn mannanna var vopnaður hnífi en tveir hafa þegar verið handteknir og lögreglan hefur fundið klósettpappírinn.

Fjölmiðlar ytra segja íbúa Hong Kong hafa keypt gífurlegt magn af klósettpappír á undanförnum dögum, af ótta við skort vegna Covid-19 veirunnar, þrátt fyrir að yfirvöld Hong Kong segja enga þörf á því. Nægar birgðir séu til af klósettpappír.

Langar biðraðir hafa þó myndast og hefur klósettpappír svo til gott sem klárast í verslunum. Svipaða sögu er að segja af vörum eins og þurrmat og hreinsiefnum.

Kaupæði þetta leiddi til töluverðrar verðhækkunar á klósettpappír og segir lögreglan að verðmæti þýfisins hafi verið um 16.500 króna. Einhverjir sérfræðingar vilja nú meina að verðmætið sé nærri því 30 þúsund krónur.

Samkvæmt frétt South China Morning Post er glæpurinn skilgreindur sem vopnað rán og gætu mennirnir mögulega verið dæmdir í lífstíðarfangelsi.

57 hafa smitast af Covid-19 í Hong Kong og einn er dáinn.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×