Man. United með tak á Chelsea og munurinn einungis þrjú stig

Anton Ingi Leifsson skrifar
Maguire fagnar marki sínu. Það var fyrsta mark hans fyrir United í ensku úrvalsdeildinni.
Maguire fagnar marki sínu. Það var fyrsta mark hans fyrir United í ensku úrvalsdeildinni. vísir/getty

Manchester United vann 2-0 sigur á Chelsea er liðin mættust í stórleik 26. umferðar í enska boltanum á Brúnni í kvöld.

Chelsea var sterkari aðilinn framan af. Liðið fékk nokkur færi en virtist sakna Tammy Abraham. Michy Batshuayi fékk færin en kláraði þau sín illa.

Fyrsta markið kom svo í uppbótartíma fyrri hálfleiks og það gerðu gestirnir. Fyrirgjöf Aaron Wan-Bissaka rataði beint á kollinn á Anthony Martial sem stangaði boltann í netið.







Gestirnir því 1-0 yfir í hálfleik en þetta var þeirra fyrsta og eina skot á markið í fyrri hálfleik.

Chelsea virtist vera jafna metin á 55. mínútu er Kurt Zouma kom boltanum í netið. Markið var hins vegar dæmt af eftir skoðun í VARsjánni en Cezar Azpilicueta átti að hafa brotið af sér. Dómurinn orkaði tvímælis.

Tíu mínútum síðar tvöfaldaði United forystuna. Frábær hornspyrna Bruno Fernandes rataði beint á kollinn á Harry Maguire sem skoraði sitt fyrsta úrvalsdeildarmark fyrir Manchester United.







Chelsea virtist vera minnka muninn í 2-1 er stundarfjórðungur var eftir af leiknum. Oliver Giroud kom inn af bekknum og skallaði fyrirgjöf Mason Mount í netið en aftur var mark dæmt af Chelsea. Nú vegna rangstöðu.

Lokatölur urðu 2-0 sigur United sem var að vinna sinn þriðja sigur á Chelsea á leiktíðinni. Rauðu djöflarnir hafa unnið báða leikina sem og viðureign liðanna í enska deildarbikarnum.

United er í sjöunda sætinu með 38 stig en er nú einungis þremur stigum á eftir Chelsea í fjórða sætinu.

Bein lýsing

Leikirnir






    Fleiri fréttir

    Sjá meira