Erlent

Sér­fræðingar segja börn heims sjá fram á ó­trygga fram­tíð

Atli Ísleifsson skrifar
Niðurstöður skýrslunnar benda til að framtíð allra barna á jörðinni sé ógnað með eyðileggingu lífríkis, loftslagsbreytinga og markaðsaðgerða stórfyrirtækja sem halda skyndibita, gosdrykkjum, áfengi og tóbaki að börnunum.
Niðurstöður skýrslunnar benda til að framtíð allra barna á jörðinni sé ógnað með eyðileggingu lífríkis, loftslagsbreytinga og markaðsaðgerða stórfyrirtækja sem halda skyndibita, gosdrykkjum, áfengi og tóbaki að börnunum. Getty

Ekkert land í heiminum nær með fullnægjandi hætti að verja heilsu barna, umhverfi þeirra og framtíð.

Þetta er fullyrt í nýrri skýrslu hóps sérfræðinga í heilsu barna og unglinga en fjörutíu sérfræðingar víðs vegar að úr heiminum unnu að skýrslunni. Skýrslan var pöntuð af Alþjóðaheilbrigðisstofnuninni (WHO), UNICEF og læknatímaritinu Lancet.

Niðurstöður skýrslunnar benda til að framtíð allra barna á jörðinni sé ógnað með eyðileggingu lífríkis, loftslagsbreytinga og markaðsaðgerða stórfyrirtækja sem halda skyndibita, gosdrykkjum, áfengi og tóbaki að börnunum.

Forsvarsmaður hópsins sem vann skýrsluna, Helen Clark, fyrrverandi forsætisráðherra Nýja-Sjálands, bendir á að þrátt fyrir stórstígar framfarir í barnavernd síðustu áratugi segi sérfræðingarnir að ekki sé nóg að gert.

Raunar ríki nú stöðnun í þeim málum, sérstaklega í fátækari hluta heimsins þar sem talið er að 250 milljónir barna undir fimm ára aldri séu nú í bráðri hættu með að ná aldrei almennilegum þroska vegna fátæktar og slæms mataræðis.

Í skýrslunni er löndum heimsins raðað eftir því hvaða ríki búi best að börnum sínum og lendir Ísland í níunda sæti, á eftir ríkjum á borð við Holland, Suður-Kóreu og Noreg, sem er á toppnum.

Á botni listans eru síðan lönd á borð við Búrúndí, Tsjad og Sómalíu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×