Erlent

Mörg þúsund föst á skemmti­ferða­skipi í Japan vegna Wu­han-veiru­smits

Kristín Ólafsdóttir skrifar
Skemmtiferðaskipið Diamond Princess.
Skemmtiferðaskipið Diamond Princess. Vísir/AP

Alls eru nú 490 látnir af völdum nýju kórónaveirunnar, sem kennd hefur verið við kínversku borgina Wuhan þar sem hún er talin eiga upptök sín. Alls eru rúmlega 24 þúsund tilfelli af veirunni staðfest, samkvæmt nýjustu tölum frá heilbrigðisyfirvöldum í Kína. Tíu tilfelli hafa jafnframt verið staðfest um borð í skemmtiferðaskipi sem er nú í einangrun í Japan.

Heilbrigðisráðuneyti Kína staðfesti 65 andlát í gær. Aldrei hafa fleiri látist vegna veirunnar á einum degi. Andlátin eru öll á meginlandi Kína en tveir hafa hingað til látist utan landsteinanna; einn á Filippseyjum og annar í Hong Kong. Báðir höfðu mennirnir heimsótt Wuhan áður en þeir veiktust og einnig voru þeir báðir með undirliggjandi sjúkdóma.

Þá er talið að fleiri farþegar skemmtiferðaskipsins Diamond Princess, sem gert er út af fyrirtækinu Carnival Corp, muni greinast með veiruna. Tíu tilfelli hafa þegar verið staðfest, líkt og áður segir, og munu hinir smituðu vera fluttir á sjúkrahús. Þeir sem hafa smitast eru frá Ástralíu, Japan, Hong Kong, Bandaríkjunum og Filippseyjum.

Öðrum verður haldið í einangrun í skipinu, sem er við bryggju í borginni Yokohama, í tvær vikur. Alls eru 3700 manns um borð. Staðfest tilfelli nýju kórónaveirunnar í Japan eru nú orðin 33.

Þá hefur einkenna veirunnar gætt meðal þrjátíu áhafnarmeðlima annars skemmtiferðaskips, sem ber heitið World Dream og gert er út af fyrirtækinu Dream Cruises. Skipinu var neitað um inngöngu í Taívan en kom í höfn í Hong Kong í dag. Heilbrigðisyfirvöld prófa nú fyrir veirunni um borð í skipinu en nær allir farþegar eru frá Hong Kong. Þrír Kínverjar sem síðar greindust með veiruna ferðuðust með skipinu í janúar.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×