Erlent

Ætla að tvöfalda fæðingarorlof finnskra feðra

Kjartan Kjartansson skrifar
Frá fundi finnsku ríkisstjórnarinnar.
Frá fundi finnsku ríkisstjórnarinnar. Vísir/EPA

Ríkisstjórn Finnlands kynnti í dag áform um að nærri því tvöfalda fæðingarorlof feðra og gera það jafnlagt og mæðra. Með breytingunni fá finnskir foreldrar nærri því sjö mánuði hvort í fæðingarorlof sem þeir geta dreift að hluta til á milli sín.

Aino-Kaisa Pekonen, heilbrigðis- og félagsmálaráðherra Finnlands, sagði að markmið breytinganna væri að auka jafnrétti kynjanna og að reyna að hressa upp á hnignandi fæðingartíðni í landinu. Í skýrslu norrænu ráðherranefndarinnar sem var kynnt í gær kom fram að fæðingartíðnin í Finnlandi, Íslandi og Noregi væri í sögulegu lágmarki.

Fram að þessu hafa finnskir foreldrar átt rétt á samtals um tólf og hálfum mánuði af tengjutengdu fæðingarorlofi. Mæður hafa átt rétt á 4,2 mánuðum í orlof en feður 2,2. Saman hafa foreldrar haft möguleikann á að ráðstafa um sex mánuðum til viðbótar. Með breytingunni verður heildartími fæðingarorlofs foreldra um fjórtán mánuðir, að sögn finnska ríkisútvarpsins YLE.

Hægt verður að færa 69 daga, um helmingi fæðingarorlofs annars foreldrisins, á milli foreldra og þá fá barnshafandi konur rétt á fæðingarorlofi allt að mánuði fyrir settan dag, að sögn Reuters-fréttastofunnar. Einstæðir foreldrar fá rétt á að nýta fæðingarorlof beggja.

Nýfæddum börnum fækkaði um fimmtung frá 2010 til 2018. Pekonen vísaði til þess að fæðingartíðni hefði aukist í Svíþjóð og á Íslandi eftir að feður fengu aukna möguleika á fæðingarorlofi.

Aðeins 10% finnskra feðra nýttu sér rétt til fæðingarorlofs eftir að þeir fengu hann fyrst árið 2003 en hlutfallið jókst upp í tæpan þriðjung eftir að orlofsrétturinn var lengdur tíu árum síðar.

Núverandi ríkisstjórn Finnlands sem tók við völdum í desember er skipuð fimm stjórnmálaflokkunum sem eru allir undir forystu kvenna. Fjórar þeirra eru yngri en 35 ára gamlar. Fyrri ríkisstjórn mið- og hægriflokka féll frá umbótum á fæðingarorlofi vegna kostnaðar við þær. Nýju breytingarnar eiga að taka gildi ekki síðar en á næsta ári. Áætlaður kostnaður við þær er metinn um hundrað milljónir evra, jafnvirði um 13,8 milljarða íslenskra króna.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×