Erlent

Hitamet Suðurskautslandsins fallið

Andri Eysteinsson skrifar
Frá rannsóknarstöðinni í Esperanza á Suðurskautslandi.
Frá rannsóknarstöðinni í Esperanza á Suðurskautslandi. Vísir/EPA

Hitamet á Suðurskautslandinu er fallið en hæsti hiti frá því að mælingar hófust árið 1961 mældist í gær, 18,3°C.

Hitinn mældist 18,3°C í Ezperanza stöðinni á norðurenda skagans sem teygir sig í átt að Suður-Ameríku, fyrra hitametið stóð í 17,5°C og mældist hitinn á þann veg 24. mars 2015.

Guardian greinir frá að umræddur skagi sé einn af þeim stöðum jarðar þar sem meðalhiti hefur hækkað hvað mest á undanförnum 50 árum.

Hitametið á suðurheimsskautssvæðinu stendur þó enn þar sem að í janúar 1982 mældist hitinn á Signy-eyju 19.8°C.

James Renwick, loftslagsvísindamaður hjá Viktoríuháskólanum í Wellington í Nýja-Sjálandi, segir í samtali við Guardian að nefnd Alþjóðaveðurfræðistofnunarinnar eigi eftir að staðfesta mælinguna en segir allt þó benda til þess að hún standist. Renwick var sjálfur í nefndinni sem hefur staðfest fyrri hitamet svæðisins.

„Mælingin er athyglisverð þar sem að ekki eru liðin nema fimm ár frá því að metið var síðast slegið og hefur það verið slegið með nær heilli gráðu. Þetta er merki um hlýnun sem er mun hraðari en meðalhlýnun á jörðinni,“ segir James Renwick.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×