Enski boltinn

37 ára gamall Ben Foster eftirsóttur

Ísak Hallmundarson skrifar
Ben Foster.
Ben Foster. getty/Neil Hall

Ben Foster, markvörður Watford sem féll úr ensku úrvalsdeildinni í sumar, er eftirsóttur af liðum í ensku úrvalsdeildinni.

Chelsea og Everton eru sögð hafa áhuga á þessum reynslumikla markverði. 

Chelsea er í markmannsleit eftir skelfilegt tímabil hjá Kepa Arrizabalaga, sem Chelsea gerði að dýrasta markverði heims árið 2018. Félagið leitar nú að nýjum markverði en er ekki tilbúið að eyða jafn háum fjárhæðum í markvörð aftur og leitar að bráðabirgðalausn fyrir komandi tímabil. 

Ben Foster kemur því sterklega til greina hjá Lundúnaliðinu, hann á að baki 364 leiki í ensku úrvalsdeildinni og hefur staðið sig vel á milli stanganna hjá Watford síðustu tvö ár þrátt fyrir fall liðsins úr deild þeirra bestu.

Carlo Ancelotti, þjálfari Everton, vill að Jordan Pickford fái aukna samkeppni um markvarðarstöðuna hjá Everton og vill að Ben Foster veiti honum hana. 

Foster gerði nýjan tveggja ára samning við Watford í júní á þessu ári áður en liðið féll um deild. Það er líklegt að hann fái að yfirgefa liðið ef tilboðið kemur.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×