Erlent

Mótmæla umfjöllun hvítrússneska ríkissjónvarpsins

Vésteinn Örn Pétursson skrifar
Fjöldi fólks hefur mótmæl Lúkasjenkó forseta síðustu daga.
Fjöldi fólks hefur mótmæl Lúkasjenkó forseta síðustu daga. Dmitri Lovetsky)/AP

Þúsundir mótmælenda hafa komið saman fyrir utan höfuðstöðvar hvítrússneska ríkissjónvarpsins í Minsk, höfuðborg Hvíta-Rússlands. Þess er krafist að ríkismiðillinn fjalli með hlutlægum hætti um mótmælaölduna sem risið hefur í landinu eftir afar umdeildar forsetakosningar fyrir tæpri viku.

Samkvæmt miðlægri kjörstjórn Hvíta-Rússlands vann Alexander Lúkasjenkó, sitjandi forseti, stórsigur í kosningunum og hlaut rúmlega 80 prósent atkvæða. Svetlana Tíkanovskaja, helsti andstæðingur hans, er sögð hafa hlotið rúm tíu prósent. Tíkanovskaja hefur farið fram á endurtalningu atkvæða og telst fullviss um að hún hafi hlotið mun fleiri atkvæði, eða á bilinu 60 til 70 prósent atkvæða.

Alþjóðlegum matsaðilum var þá ekki leyft að fylgjast með framkvæmd kosninganna, auk þess sem utanríkisráðherrar Evrópusambandsríkja hafa kallað kosningarnar „falsaðar.“ Bandarísk stjórnvöld hafa einnig fordæmt framkvæmd kosninganna og segir hana hvorki hafa verið frjálsa né sanngjarna.

Starfsmenn sjónvarpsins ósáttir

Ríkissjónvarp Hvíta-Rússlands kaus fyrst um sinn að fjalla ekki um mótmælin sem brutust út eftir að tilkynnt var um meintan sigur Lúkasjenkós. Á kjördag voru birt viðtöl við stuðningsmenn Lúkasjenkós en hvergi minnst á óánægju stjórnarandstöðunnar eða mótmælin.

Ríkissjónvarpið fjallaði síðar um mótmælin og hvatti fólk til þess að taka ekki þátt í þeim. Þó nokkrir fréttamenn hafa sagt upp störfum vegna stefnu ríkissjónvarpsins.

Um hundrað starfsmenn ríkisútvarpsins komu í kvöld út úr byggingu stofnunarinnar og tóku þátt í mótmælunum. Breska ríkisútvarpið greinir frá því að margir starfsmenn ríkissjónvarpsins hyggist fara í verkfall vegna umfjöllunar síðustu daga.


Tengdar fréttir



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×