Erlent

Tik­hanovskaja vill að Hvít-Rússar krefjist endur­talningar

Atli Ísleifsson skrifar
Mótframbjóðandi Lúkasjenkó, Svetlana Tikhanovskaja, er af landskjörstjórn sögð hafa fengið um 10 prósent atkvæða.
Mótframbjóðandi Lúkasjenkó, Svetlana Tikhanovskaja, er af landskjörstjórn sögð hafa fengið um 10 prósent atkvæða. Getty

Hvítrússneski stjórnarandstæðingurinn Svetlana Tikhanovskaja hefur hvatt landsmenn sína til að skrifa undir undirskriftarsöfnun þar sem endurtalningar í forsetakosningum síðustu helgar er krafist.

Mikil mótmæli hafa verið í landinu síðustu daga eftir að landskjörstjórn tilkynnti að forsetinn Aleksandr Lúkasjenkó, hafi fengið um 80 prósent atkvæða. Lögregla hefur handtekið tæplega sjö þúsund mótmælendur í vikunni en talsmenn yfirvalda segja að þeim verði sleppt í dag.

Tikhanovskaja, sem flúði til Litháens í kjölfar kosninganna, hvatti í dag borgarstjóra í Hvíta-Rússland til að skipuleggja og heimila friðsama mótmælafundi í landinu. Alþjóðlegir eftirlitsaðilar hafa gagnrýnt framkvæmd kosninganna og hafa komið fram ásakanir um víðtækt kosningasvindl.

Ræða viðskiptaþvinganir

Erlendir fjölmiðlar segja Ursulu von der Leyen, forseta framkvæmdastjórnar ESB, nú hafa lagt til að beita skuli Hvíta-Rússlandi viðskiptaþvingunum vegna framkvæmdar kosninganna, en utanríkisráðherrar aðildarríkja sambandsins koma saman til fundar í dag til að ræða málið. Áður hafði Josep Borrell, utanríkismálastjóri ESB, sagt að kosningarnar í Hvíta-Rússlandi hafi hvorki verið sanngjarnar né frjálsar.

Lúkasjenkó hefur stýrt landinu frá árinu 1994 og hefur hann lengi verið kallaður síðasta einræðisherra Evrópu.


Tengdar fréttir



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×