ÍA stóð uppi sem sigurvegari í Fótbolti.net mótinu eftir 5-2 sigur á Breiðablik í úrslitaleiknum á Kópavogsvelli í kvöld.
Mikill hiti var í leiknum en það voru Skagamenn sem komust yfir eftir stundarfjórðung er Tryggvi Hrafn Haraldsson skoraði með frábærri afgreiðslu.
Marteinn Theodórsson tvöfaldaði forystu Skagamanna á 32. mínútu eftir hörmuleg mistök Antons Ara í marki Blika og Tryggvi skoraði þriðja mark Skagamanna á 39. mínútu.
Staðan var 3-0 í hálfleik en Tryggvi Hrafn fullkomnaði þrennuna á sjöttu mínútu síðari hálfleiks eftir darraðadans í teig Blika.
Gísli Eyjólfsson minnkaði muninn í 4-1 með skalla á 54. mínútu og sex mínútum síðar skoraði Benedikt Warén er hann kláraði góða fyrirgjöf í netið.
Skagamenn fengu svo vítaspyrnu á 66. mínútu er Oliver Sigurjónsson braut á Herði Inga Gunnarssyni. Steinar Þorsteinsson skoraði af miklu öryggi.
Allt sauð svo upp úr á 73. mínútu er Aron Kristófer Lárusson fór groddaralega í Brynjólf Darra. Guðjón Pétur Lýðsson hljóp á eftir Aroni og virtist slengja höndinni í andlitið á honum.
Guðjón Pétur var rekinn í bað og hann var ekki eini Blikinn sem var sendur í bað því varamaðurinn Brynjólfur Darri Willumsson fékk rautt á 76. mínútu. Það virtist vera fyrir kjaftbrúk.
Fleiri urðu mörkin, og rauðu sjöldin ekki, og lokatölur 5-2 sigur Skagamanna sem standa uppi sem sigurvegarar í Fótbolti.net mótinu þetta árið.
Breiðablik fékk tvö rauð spjöld og skell gegn ÍA í úrslitaleiknum
