Erlent

Kallar eftir palestínsku ríki og viðurkenningu á landtökubyggðum

Samúel Karl Ólason skrifar
Donald Trump, forseti Bandaríkjanna.
Donald Trump, forseti Bandaríkjanna. AP/Alex Brandon

Donald Trump, forseti Bandaríkjanna, kynnti friðaráætlun sína varðandi Mið-Austurlönd fyrir skömmu. Við hlið hans var Benjamin Netanyahu, forsætisráðherra Ísrael, sem hefur lýst yfir stuðningi við áætlun Trump, sem Jared Kushner, tengdasonur Trump, hefur unnið að í þrjú ár.

Sú áætlun felur í sér stofnun palestínsks ríkis og að höfuðborg ríkisins verði í austurhluta Jerúsalem. Hann sagði þó þar að auki að Jerúsalem yrði „óskipt höfuðborg“ Ísrael, þannig að það er ekki á ljósu enn hvort það verður.

Áætlunin felur einnig í sér að yfirráðasvæði Palestínu um það bil tvöfaldast að stærð en yfirráð Ísrael yfir stórum hluta Vesturbakkans verða einnig viðurkennd. Ísraelar munu einnig samþykkja að fjölga ekki landtökubyggðum í fjögur ár á meðan viðræður standa yfir. Bandaríkin munu viðurkenna þær byggðir sem hluta af Ísrael.

Trump sagði enginn þyrfti að yfirgefa heimili sitt. Hvorki Palestínumenn eða Ísraelar.

Það er óljóst hvernig íbúar og stjórnendur Palestínu munu taka áætlun Trump en hún byggir að miklu leyti á efnahagsáætlun Trump fyrir Vesturbakkann og Gaza sem opinberuð var í júní. Palestínumenn höfnuðu henni. AP fréttaveitan segir fyrstu viðbrögð við áætluninni vera neikvæð. Palestínumenn saka Trump um að hylla Ísrael.

Trump biðlaði sérstaklega til Mahmoud Abbas, forseta heimastjórnar Palestínu, og bað hann um að koma að samningaborðinu. Þá sagði hann að þetta væri mögulega síðasta tækifæri Palestínumanna til að eignast sjálfstætt ríki.

Trump sagði einnig að það væri kominn tími til að leiðtogar Arabaríkja leiðrétti mistök þeirra frá 1948 og viðurkenni loks tilvist Ísrael. Embættismenn sem AP ræddi við segjast búast við því að áætluninni verði hafnað af Palestínumönnum, Tyrklandi og Íran. Þeir vonast þó til þess að yfirvöld Jórdaníu og Egyptalands, einu landa svæðisins sem eru með friðarsáttmála við Ísrael, hafni henni ekki.


Tengdar fréttir

Netanjahú formlega ákærður

Ríkissaksóknari í Ísrael hefur ákært Benjamín Netanjahú, forsætisráðherra Ísrael, fyrir mútur, fjársvik og umboðssvik. Þetta gerði hann í kjölfar þess að hinn síðarnefndi dró beiðni til um friðhelgi til baka.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×