Erlent

Mikilvægum áfanga í baráttunni gegn Wuhan-veirunni náð

Samúel Karl Ólason skrifar
Um stórt skref í baráttunni gegn veirunni er að ræða þar sem áfanginn mun gera vísindamönnum kleift að þróa aðferð til að greina smit áður en fólk sýnir einkenni og hjálpa til við þróun mótefnis.
Um stórt skref í baráttunni gegn veirunni er að ræða þar sem áfanginn mun gera vísindamönnum kleift að þróa aðferð til að greina smit áður en fólk sýnir einkenni og hjálpa til við þróun mótefnis. Vísir/AP

Vísindamenn í Ástralíu hafa orðið fyrstir til að skapa Wuhan-veiruna svokölluðu á rannsóknarstofu, utan Kína. Um stórt skref í baráttunni gegn veirunni er að ræða þar sem áfanginn mun gera vísindamönnum kleift að þróa aðferð til að greina smit áður en fólk sýnir einkenni og hjálpa til við þróun mótefnis.

Vísindamenn í Kína höfðu áður náð þessum áfanga en þeir deildu niðurstöðum sínum ekki með Alþjóðaheilbrigðisstofnunni. Þeir deildu þó myndum af erfðamengi veirunnar sem hjálpaði vísindamönnunum í Ástralíu.

Í samtali við fréttamenn ABC segir Mike Catton einn forsvarsmanna Peter Doherty stofnunarinnar í Melbourne að um vendipunkt sé að ræða.

Uppgötvunin mun gera öðrum vísindamönnum auðveldara að skilja kórónaveiruna.

Xi heitir því að uppræta „djöful-veiruna“

Xi Jinping, forseti Kína, hét því í dag að uppræta kórónaveiruna sem gengur undir nafninu Wuhan-veiran. Kallaði hann veiruna „djöful-veiru“ en hún hefur leitt til rúmlega hundrað dauðsfalla og hafa áhyggjur vegna mögulegs faraldurs aukist á undanförnum dögum.

„Þessi veira er djöfull og við getum ekki leyft djöflinum að fela sig,“ sagði Xi samkvæmt frétt Reuters. „Kína mun styrkja alþjóðasamstarf og taka vel á móti aðkomu Alþjóðaheilbrigðisstofnunarinnar að vörnum gegn veirunni. Kína er fullvisst um sigur í þessari orrustu við veiruna.“

Sjá einnig: Gagnvirkt kort sýnir útbreiðslu Wuhan-veirunnar

Yfirvöld margra ríkja í heiminum vinna nú að því að flytja borgara sína á brott frá Kína og sérstaklega frá Wuhan-héraði, þar sem veiran stakk upp kollinum.

Hagfræðingar hafa áhyggjur af því hvaða áhrif veiran og faraldurinn muni hafa á efnahagi heimsins. Veiran hefur komið verulega niður á ferðaþjónustu í Kína og samdráttur þar í landi gæti haft mikil áhrif á heiminn allan. Landsframleiðsla í Kína er 16 prósent af heimsframleiðslunni, samkvæmt Alþjóðabankanum.

Enn sem komið er hafa öll dauðsföllin 106 átt sér stað í Kína en smitum í öðrum ríkjum hefur farið fjölgandi.


Tengdar fréttirAthugið. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Vísir hvetur lesendur til að halda sig við málefnalega umræðu. Einnig áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi eða ósæmilegar athugasemdir og ummæli þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.