Erlent

Írar kjósa í febrúar

Kjartan Kjartansson skrifar
Varadkar hreykti sér af afrekum í embætti í dag. Hann ætlar að boða til kosninga í byrjun febrúar.
Varadkar hreykti sér af afrekum í embætti í dag. Hann ætlar að boða til kosninga í byrjun febrúar. Vísir/EPA

Leo Varadkar, forsætisráðherra Írlands, ætlað að leggja fram formlega beiðni til Michaels Higgins, forseta, um að hann leysi upp þingið fyrir þingkosningarnar í næsta mánuði. Búist er við því að heilbrigðis- og húsnæðismál verði ofarlega á baugi í kosningabaráttunni.

Írskir fjölmiðlar segja að Varadkar hafi sagt ráðherrum sínum að hann stefni að kosningum 8. febrúar. „Við höfum náð góðum árangri frá því að ég varð forsætisráðherra en ég veit að það er ekki nóg og við viljum gera mikið meira,“ sagði Varadkar í myndabandi sem hann tísti í dag.

Fine Gael-flokkur Varadkar og Fianna Fail hafa verið svo gott sem jafnir að fylgi í skoðanakönnunum undanfarin misseri. Báðir eru miðhægriflokkar með svipaða stefnu í efnahagsmálum og gagnvart útgöngu Breta úr Evrópusambandinu, að sögn Reuters-fréttastofunnar.

Varadkar er fertugur og fyrsti samkynhneigði forsætisráðherra Írlands. Flokkur hans hefur leitt minnihlutastjórn frá 2016 með samkomulagi sem hann gerði við Fianna Fail. Báðir flokkar hafa hafnað alfarið samstarfi við Sinn Fein, þriðja stærsta stjórnmálaflokk landsins. Hann var áður pólitískur armur Írska lýðveldishersins (IRA).

Búist er við því að hvorugur flokkur nái hreinum meirihluta í kosningunum í febrúar og að önnur minnihlutastjórn sé því í spilunum. Írar hafa glímt við húsnæðisvanda og yfirfull sjúkrahús og er reiknað með að um þau mál verði deilt í kosningabaráttunni næstu vikur.
Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.