Erlent

Vara við því að ný veira gæti dreift úr sér

Kjartan Kjartansson skrifar
Heilbrigðisstarfsmaður fylgist með farþegum á alþjóðaflugvellinum í Hong Kong. Grannt hefur verið fylgst með mögulegri útbreiðslu nýju veirunnar.
Heilbrigðisstarfsmaður fylgist með farþegum á alþjóðaflugvellinum í Hong Kong. Grannt hefur verið fylgst með mögulegri útbreiðslu nýju veirunnar. AP/Andy Wong

Alþjóðaheilbrigðisstofnunin hefur sent sjúkrahúsum um allan heim leiðbeiningar vegna mögulegrar útbreiðslu nýrrar tegundar kórónaveiru sem kom upp í Kína í desember. Greint var frá fyrsta tilfellinu sem greinist utan Kína í Taílandi í gær.

Einn hefur látið lífið og nokkrir veikst heiftarlega í öndunarfærum af völdum veirunnar í kínversku borginni Wuhan. Smitið var rakið til markaðar með lifandi dýr þar í borg og eru einkennin sögð líkjast lungnabólgu.

Alþjóðaheilbrigðisstofnunin (WHO) segir nú í fyrsta skipti að „takmarkað“ smit hafi átti sér stað á milli manna en möguleiki sé á frekari útbreiðslu. Stofnunin segist búa sig undir þann möguleika og sjúkrahúsum um allan heim hafi verið sendar leiðbeiningar um sýkingarvarnir.

Kínversk kona hefur verið sett í einangrun í Taílandi en hún er talin sýkt af veirunni. Það er fyrsta tilfelli hennar utan Kína, að sögn Reuters-fréttastofunnar. Konan kom til Taílands 8. janúar en enginn samferðamanna hennar veiktist. Hún er nú sögð nógu frísk til að halda heim til Wuhan.

Afbrigði sömu veiru olli SARS-faraldrinum svonefnda sem dró um 700 manns til dauða um allan heim frá 2002 til 2003. Faraldurinn átti upptök sín í Kína en smitaði um 8.000 manns í 26 löndum, að sögn breska ríkisútvarpsins BBC.


Tengdar fréttirAthugið. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Vísir hvetur lesendur til að halda sig við málefnalega umræðu. Einnig áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi eða ósæmilegar athugasemdir og ummæli þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.