Erlent

Virkja ágreiningsákvæði í samningi við Íran

Samúel Karl Ólason og Þórgnýr Einar Albertsson skrifa
Frá undirritun samningsins árið 2015.
Frá undirritun samningsins árið 2015. AP/Joe Klamar

Evrópusambandsríkin sem eru aðilar að kjarnorkusamningnum við Íran sögðust í dag hafa virkjað ágreiningsákvæði samningsins eftir að Íran dró úr þátttöku sinni. Um er að ræða Bretland, Frakkland og Þýskaland.

Íran, ESB, Kína, Rússland, Bandaríkin, Þýskaland, Frakkland og Bretland undirrituðu þennan samning árið 2015. Hann gengur í meginatriðum út á að takmarka kjarnorkuáætlun Írans gegn afléttingu viðskiptaþvingana. Eftir að Donald Trump Bandaríkjaforseti ákvað að hætta þátttöku og setja viðskiptaþvinganir aftur á hafa samskipti Bandaríkjanna og Írans versnað til muna.

Eftir dráp Bandaríkjamanna á írönskum hershöfðingja og eldflaugaárás Írana á bandarískar herstöðvar í Írak er allt á suðupunkti og Íran hefur dregið allverulega úr þátttöku sinni í samningnum. Sérstaklega varðandi takmarkanir á auðgun úrans.

Josep Borrell, utanríkismálastjóri ESB, ræddi í dag um ákvörðun Breta, Frakka og Þjóðverja um að virkja þetta ágreiningsákvæði samningsins. Það þýðir að aðildarríkin hafa tvær vikur til þess að leysa úr ágreiningsmálum sem komið hafa upp, það er að segja ákvörðun Írana að hætta að fylgja samningnum eftir.

Takist það ekki er hægt að senda deiluna til Öryggisráðs Sameinuðu þjóðanna sem myndi þá greiða atkvæði um að setja þær viðskiptaþvinganir sem felldar voru niður með samningnum aftur á Íran. Það myndi tákna formlegan enda samningsins.

Boris Johnson, forsætisráðherra Breta, sagði markmið samningsins, að koma í veg fyrir að Íran fengi kjarnorkuvopn, enn mikilvægt. Fyrst Bandaríkin vilji ekki vera með þurfi að grípa til annarra ráðstafana.

Yfirvöld Íran segja Evrópuríkin hins vegar misnota samninginn. Þrátt fyrir það væru Íranar tilbúnir til uppbyggilegra viðræðna um hann.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×