Erlent

Vill að óafsakanlegur flótti Ghosn verði rannsakaður

Andri Eysteinsson skrifar
Carlos Ghosn, fyrrverandi yfirmaður Nissan og Renault
Carlos Ghosn, fyrrverandi yfirmaður Nissan og Renault AP/Koji Sasahara

Dómsmálaráðherra Japan Masako Mori hefur fyrirskipað að rannsókn á flótta Carlos Ghosn, fyrrverandi stjórnarformann Nissan, frá landinu til Líbanon fari í hönd. Í Japan bíða Ghosn réttarhöld vegna meiriháttar misferlis í starfi. AP greinir frá.

Ghosn hafði fengið sig lausan úr haldi í Japan gegn greiðslu tryggingar en var í farbanni. Ekki liggur ljóst fyrir hvernig Ghosn flúði til Líbanon. Dómsmálaráðherrann Mori sagði að brugðist hafi verið við flóttanum, Interpol hafi gefið út handtökutilskipun og eftirlit á flugvöllum yrði að vera aukið.

Ekki er í gildi framsalssamningur milli Japan og Líbanon og hafði Mori ekki margt að segja um mögulegar leiðir til þess að fá Ghosn aftur til landsins.

Í yfirlýsingu sinni sem gefin var út í Beirút hélt Ghosn fram sakleysi sínu. Sagðist hann hafa flúið Japan af ótta við að fá ekki réttlátt réttarhöld en sakfellingarhlutfall fyrir japönskum dómstólum hefur verið nærri 99%.

Japanskir verjendur Ghosn sögðu í yfirlýsingum sínum að þeir hafi ekkert vitað um fyrirætlanir skjólstæðings síns og sögðust sviknir af gjörðum hans.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×