Erlent

Af­töku­dagur á­kveðinn í víð­frægu nauðgunar­máli í Ind­landi

Samúel Karl Ólason skrifar
Asha Devi, móðir konunnar sem mennirnir nauðguðu og myrtu.
Asha Devi, móðir konunnar sem mennirnir nauðguðu og myrtu. AP/Press Trust of India

Dómstólar í Indlandi hafa ákveðið hvenær taka á fjóra menn, sem dæmdir voru fyrir hópnauðgun og morð ungrar konu í Indlandi árið 2012, af lífi. Dauði konunnar vakti gífurlega athygli og leiddi til umfangsmikilla mótmæla gegn ofbeldi gegn konum í landinu.

Mennirnir fjórir heita Akshay Thakur, Vinay Sharma, Pawan Gupta og Mukesh Singh og voru þeir dæmdir til dauða árið 2013 eftir hröð réttarhöld.

Fórnarlamb þeirra var 23 ára kona sem var á ferð með vini sínum eftir bíóferð. Þau héldu að þau væru að fara um borð í strætó og á leið heim en mennirnir höfðu leigt strætisvagn og réðust á þau. Sex menn voru um borð í strætisvagninum og nauðguðu þeirra konunni í margar klukkustundir og gengu í skrokk á vini hennar. Að endingu var þeim hent úr vagninum á ferð.

Konan, sem hefur síðan fengið viðurnefnið Nirbhaya, eða „hin óttalausa“, lést af sárum sínum þrettán dögum síðar.

Einn mannanna dó í fangelsi og annar var dæmdur í þriggja ára fangelsi, þar sem hann var einungis sautján ára. Honum var sleppt úr fangelsi árið 2015.

Eftir að þeir fjórir sem um ræðir voru dæmdir til dauða árið 2013 leituðu þeir til Hæstaréttar Indlands sem stöðvaði aftöku þeirra. Nú stendur til að hengja þá þann 22. janúar. Lögmenn mannanna segjast þó ætla að beita lokaúrræði til að reyna að koma í veg fyrir aftökurnar, samkvæmt BBC.

Móðir Nirbhaya ræddi við BBC og segist mjög ánægð. Hún segir síðustu sjö ár hafa tekið verulega á og hún sé loksins að fá réttlæti fyrir dóttir sína.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×