Erlent

Neyðarástandi lýst yfir í Púertó Ríkó

Samúel Karl Ólason skrifar
Embættismenn í Púertó Ríkó segja minnst 346 manns hafa misst heimili sín.
Embættismenn í Púertó Ríkó segja minnst 346 manns hafa misst heimili sín. AP/Carlos Giusti

Wanda Vazquez, ríkisstjóri Púertó Ríkó, hefur lýst yfir neyðarástandi á eyjunni eftir að sterkur jarðskjálfti skall þar á í gær. Minnst einn lést í jarðskjálftanum og hús hrundu víða. Skjálftinn olli því einnig að nánast öll eyjan er á rafmagns en rúmlega þrjár milljónir búa á Púertó Ríkó.

Skjálftar hafa verið að leika íbúa eyjunnar grátt frá 28. desember. Hundruð skjálfta hafa mælst og þar af tíu yfir fjórum að styrk.

Vazquez segist búast við að rafmagn verði komið á aftur að mestu innan tveggja sólarhringa, samkvæmt Reuters. Rafmagnsleysið hefur leitt til þess að minnst 300 þúsund manns hafa ekki aðgang að drykkjarvatni.

Embættismenn í Púertó Ríkó segja minnst 346 manns hafa misst heimili sín. Fjölmargar byggingar hafa orðið fyrir skemmdum án þess að hrynja og er fólk verulega óttaslegið.

Sjá einnig: Flýja húsin sín í Púertó Ríkó

Samkvæmt Washington Post hrundu minnst 32 hús í bænum Yauco og eru rúmlega hundrað íbúðir óíbúðarhæfar.

Neyðarástandsyfirlýsingin, sem Vazquez skrifaði undir í gærkvöldi, felur í sér að yfirvöld Púertó Ríkó geta leitað til alríkisstjórnar Bandaríkjanna eftir fjárhagsaðstoð vegna jarðskjálftanna. Íbúar eyjunnar eru enn að jafna sig á því þegar fellibylurinn María olli gífurlegum usla, skemmdum og manntjóni. Þar að auki eru yfirvöld eyjunnar að etja við gjaldþrotaferli vegna mikilla skuldbindinga.

Tengd skjöl
Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.