Erlent

Vilja kaupa háþróaða dróna af Bandaríkjunum

Samúel Karl Ólason skrifar
Yfirvöld í Taívan hafa að undanförnu varið miklu púðri í endurbætur á herafla eyríkisins.
Yfirvöld í Taívan hafa að undanförnu varið miklu púðri í endurbætur á herafla eyríkisins. EPA/RITCHIE B. TONGO

Ríkisstjórn Taívan á í viðræðum við Bandaríkin um að kaupa minnst fjóra hátækni hernaðardróna. Gangi viðræðurnar etir yrði það í fyrsta sinn sem eyríkið kaupir slík vopn. Um er að ræða sérstaka eftirlitsdróna sem geta flogið allt að 11 þúsund kílómetra. Þetta kemur fram í frétt Reuters en ekki liggur fyrir hvort að drónarnir eigi að bera vopn og þing Bandaríkjanna þarf að samþykkja söluna.

Slíkir drónar, sem kallast SeaGuardian, myndu gera hernaðaryfirvöldum í Taívan kleift að fylgjast mun betur með aðgerðum herafla Kína á svæðinu.

Ríkisstjórn Donald Trump, forseta Bandaríkjanna, hefur ákveðið að reyna að selja fleiri dróna og í gær lögðu þingmenn bæði Repúblikana- og Demókrataflokksins fram frumvarp um að eingöngu væri hægt að selja vopn til bandamanna Bandaríkjanna.

Það yrðu ríki Atlantshafsbandalagsins, Ástralía, Nýja-Sjáland, Suður-Kórea, Japan og Ísrael.

Salan, ef af henni verður, mun án efa reita yfirvöld í Kína til reiði. Kínverjar gera tilkall til Taívan og lítur á eyjuna sem hluta af lýðveldinu. Yfirvöld í Kína hafa ítrekað hótað því að sameina ríkin á nýjan leik með valdi.

Bandaríkin slitu formlegum tengslum við Taívan árið 1979, að kröfu Kínverja, en hafa þrátt fyrir það haldið umfangsmiklum óformlegum tengslum við ríkið og útvega Taívan meðal annars vopn.

Wang Wenbin, talsmaður Utanríkisráðuneytis Kína, ítrekaði mótmæli ríkisins við vopnasölu Bandaríkjanna til Taívan. Hann sagði að Bandaríkin ættu að stöðva söluna svo hún skaðaði ekki samband ríkjanna.

Í fyrra samþykktu Bandaríkin að selja 108 M1A2 Abrams skriðdreka til Taívan og and-skriðdreka og and-flugvélavopn. Einnig var samþykkt að 66 orrustuþotur til eyríkisins.


Tengdar fréttir

Ríkisstjórn Taívan skammast út í WHO

Ríkisstjórn Taívan segir Alþjóðaheilbrigðismálastofnunina (WHO) ekki hafa deilt gögnum og upplýsingum baráttuna gegn faraldri nýju kórónuveirunnar þar í landi með öðrum ríkjum.

Bandaríkjamenn vöknuðu við vondan draum í München

Öryggisráðstefnan í München varpaði miklu ljósi á sífellt versnandi samband Bandaríkjanna og Evrópu. Sprungur í sambandinu urðu að gjám og forsvarsmenn Evrópu og Bandaríkjanna virðast sjá heiminn í mismunandi ljósi.Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.