Enski boltinn

Stórstjörnur Man. City fá risabónus ef liðið vinnur Meistaradeildina

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Sergio Aguero fagnar Englandsmeistaratitlinum með Manchester City. Hann á von á vænum bónus vinni Manchester City Meistaradeildina efrtir sautján daga.
Sergio Aguero fagnar Englandsmeistaratitlinum með Manchester City. Hann á von á vænum bónus vinni Manchester City Meistaradeildina efrtir sautján daga. Getty/ Shaun Botterill

Stórstjörnur Manchester City hafa unnið marga titla á síðustu árum en þeir hafa aldrei fengið eins stóran bónus og bíður þeirra ef liðið vinnur Meistaradeildina 23. ágúst næstkomandi.

Bestu leikmenn Man. City fá nefnilega sannkallaðan risabónus ef liðið vinnur Meistaradeildina.

Manchester City hefur þannig háttinn á að leikmenn munu fá mismunandi háa bónusa vinni liðið Meistaradeildina. Það fer allt eftir samningnum hvers og eins.

Manchester City er eina enska liðið sem á raunhæfa möguleika á því að gera eitthvað í Meistaradeildinni sem hefst aftur annað kvöld. Tottenham og Liverpool eru úr leik og Chelsea tapaði fyrri leiknum á móti Bayern München 3-0 á heimavelli sínum.

Manchester City liðið vann aftur á móti 2-1 útisigur á Real Madrid og er því í mjög góðri stöðu þegar seinni leikurinn fer fram í Manchester annað kvöld.

Daily Mail segir þessum risabónusgreiðslum leikmanna Manchester City liðsins. Það er ljóst að það fá ekki allir slíka tröllabónusa en hann er hluti af bestu samningunum.

Það þýðir að toppleikmenn eins og þeir Kevin De Bruyne, Sergio Aguero og David Silva fá eina milljón punda hver í bónus takist liðinu að vinna Meistaradeildina. Það þýðir 177 milljóna króna eingreiðslu sem er ágætis búbót.

Alls munu eigendur Manchester City þurfa að borga fimmtán milljónir punda, 2,6 milljarða króna, í bónusgreiðslur verði Manchester City sjötta enska félagið til að vinna Meistaradeildina.

Liverpool (6 sinnum), Manchester United (3), Nottingham Forest (2), Chelsea (1), Aston Villa (1) eru einu ensku félögin sem hafa unnið Evrópukeppni Meistaraliða og aðeins Liverpool, Manchester United og Chelsea hafa unnið keppnina síðan hún breyttist í Meistaradeildina.

Manchester City hefur reyndar unnið Evrópukeppni en það var fyrir fimmtíu árum. City liðið vann þá UEFA-bikarinn eftir 2-1 sigur á pólska félaginu Górnik Zabrze í úrslitaleik í Vín.

Seinni leikur Manchester City og Real Madrid fer fram annað kvöld og verður í beinni útsendingu á Stöð 2 Sport 2 en útsendingin hefst klukkan 18.50. Upphitunin fyrir Meistaradeildarkvöldið hefst á sömu stöð klukkan 18.15.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×