Erlent

Geimfarar stefna aftur til jarðar í SpaceX-ferju

Kjartan Kjartansson skrifar
Bob Behnken um borð Dragon-geimferju SpaceX sem lá þá við Alþjóðlegu geimstöðina. Hann og félagi hans Doug Hurley eru nú lagðir af stað heim til jarðar.
Bob Behnken um borð Dragon-geimferju SpaceX sem lá þá við Alþjóðlegu geimstöðina. Hann og félagi hans Doug Hurley eru nú lagðir af stað heim til jarðar. AP/NASA

Tveir bandarískir geimfarar sem voru þeir fyrstu til að fara út í geim með einkafyrirtækinu SpaceX eru lagðir af stað heim til jarðar frá Alþjóðlegu geimstöðinni. Þeirra er að vænta í kvöld og gangi allt að óskum verður þetta í fyrsta skipti sem bandarískt geimfar flytur menn út í geim og til baka frá því að geimskutluáætlunin leið undir lok fyrir tæpum áratug.

Lendingarstaður þeirra Doug Hurley og Bob Behnken verður í Mexíkóflóa utan við vesturströnd Flórída, fjarri leið fellibyljarins Isaiasar sem stefnir á austurströnd ríkisins, að sögn breska ríkisútvarpsins BBC. Áætluð lending er klukkan 18:40 að íslenskum tíma.

Ferð tvímenninganna er söguleg því þetta er í fyrsta skipti sem menn fara út í geim með einkafyrirtæki. Þetta er jafnframt fyrsta bandaríska mannaða geimferðin frá því að síðasta geimskutlan lenti árið 2011. Síðan þá hafa Bandaríkjamenn þurft að leigja sér far um borð í rússneskum Soyuz-geimferjum til að komast til Alþjóðlegu geimstöðvarinnar á braut um jörðu.

Bandaríska geimvísindastofnunin NASA réði einnig Boeing til að smíða ferju til að koma geimförum hennar til geimstöðvarinnar. Boeing hefur lent í töfum vegna tæknilegra vandamála.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×