Innlent

Tjaldsvæðin á Akureyri full í nótt, mannlaus brenna í Eyjum

Kjartan Kjartansson skrifar
Akureyri er alla jafna vinsæll áfangastaður um verslunarmannahelgi en nýjar sóttvarnareglur vegna kórónuveirufaraldursins setja strik í reikninginn í ár. Myndin er úr safni.
Akureyri er alla jafna vinsæll áfangastaður um verslunarmannahelgi en nýjar sóttvarnareglur vegna kórónuveirufaraldursins setja strik í reikninginn í ár. Myndin er úr safni. Vísir/Vilhelm

Töluvert er af ferðafólki á Akureyri og voru tjaldsvæðin þar full að því marki sem nýjar og hertar sóttvarnareglur leyfa í nótt, að sögn lögreglunnar á Akureyri. Engin teljandi vandræði voru í nótt en tveir voru þó kærðir fyrir ölvunarakstur.

Akureyri hefur verið einn vinsælasti áfangastaður skemmtanaþyrstra landsmanna um verslunarmannahelgi. Þeirri litlu dagskrá sem hafði verið skipulögð fyrir helgina var aflýst eftir að stjórnvöld hertu sóttvarnareglur og komu á hundrað manna hámarki fyrir samkomu og gerðu tveggja metra fjarlægðarreglu að skyldu í gær.

Árni Páll Jóhannsson, lögreglumaður á Akureyri, segir við Vísi að margt sé um manninn í bænum og tjaldsvæðin séu full miðað við þær takmarkanir sem nú gilda. Hann veit til þess að tjaldsvæðin hafi þurft að vísa fólki frá af þeim sökum í gær.

„Auðvitað er fólk missátt við að komast ekki að en fólk virðir þetta og sýnir því skilning,“ segir hann.

Víðir Reynisson, yfirlögregluþjónn hjá almannavarnadeild ríkislögreglustjóra, sagði í kvöldfréttum Stöðvar 2 í gærkvöldi að sérstakur viðbúnaður yrði hjá lögreglu um allt land vegna mögulegrar hópamyndunar þó að ekkert væri um formleg hátíðarhöld.

Í Vestmannaeyjum er engin þjóðhátíð í ár. Þar var engu að síður haldin brenna klukkan 22:00 í gærkvöldi og var fólkið beðið um að njóta hennar úr fjarska. Lokað var fyrir umferð akandi og gangandi í Herjólfsdal frá klukkan 21:00 og var gæsla við golfvöllinn til að tryggja að fólk færi ekki yfir hann, að sögn Eyjafrétta.

Staðarblaðið segir einnig að töluvert hafi verið um afbókanir í Herjólf í gær. Um 500 farþegar voru þá bókaðir til Eyja.


Tengdar fréttir

Tjaldsvæðin búa sig undir að vísa fólki frá

Hert samkomubann sem tekur gildi á morgun hefur mikil áhrif starfsemi tjaldsvæða sem bjuggu sig undir eina stærstu ferðahelgi ársins um helgina. Forsvarsmaður tjaldsvæðanna á Akureyri ræður fólki sem ætlaði sér að tjalda þar frá því að leggja í hann.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×