Erlent

Samflokksmenn Trump hafna hugmyndum um frestun kosninganna

Andri Eysteinsson skrifar
Mitch McConnell (v) og Kevin McCarthy (h) eru ósammála forsetanum (m).
Mitch McConnell (v) og Kevin McCarthy (h) eru ósammála forsetanum (m). Getty/Erin Schaff

Leiðtogar Repúblikanaflokksins í báðum deildum Bandaríkjaþings hafa hafnað tillögu Bandaríkjaforseta um að forsetakosningunum sem fara fram í nóvember verði frestað vegna áhyggja af kosningasvindli.

Fyrr í dag ýjaði Donald Trump Bandaríkjaforseti að því að kosningunum verði mögulega frestað. Forsetinn hefur þó ekki völd til þess og þyrfti slík ákvörðun að fara í gegnum meðferð þingsins. Forsetinn hélt því fram að stórfelld svik yrðu framin í kosningunum þar sem að yfirvöld í fjölda ríkja vilja grípa til þess að leyfa póstatkvæði vegna kórónuveirufaraldursins. Sagði Trump að kosningarnar ættu eftir að verða þjóðarskömm fyrir Bandaríkin.

Leiðtogi Repúblikanaflokksins í Öldungadeild Bandaríkjaþings, Mitch McConnell minnti á að engum forsetakosningum í Bandaríkjunum hafi verið frestað. Í samtali við útvarpsstöðina WNKY í heimaríki hans Kentucky sagði þingmaðurinn. „Aldrei í sögu þessa lands, þrátt fyrir stríð, efnahagskreppu og borgarastyrjöld, hefur alríkiskosning ekki farið fram á réttum tíma. Við munum finna leið til þess að halda kosningarnar 3. nóvember,“ sagði McConnell.

BBC hefur eftir leiðtoga flokksins í fulltrúadeildinni, Kevin McCarthy, að kosningarnar skuli fara fram á réttum tíma. Sömu skoðun hefur Lindsay Graham öldungadeildarþingmaður sem jafnan hefur stutt ákvarðanir forsetans.

Talsmaður framboðs forsetans, Hogan Gidley, segir þó að Trump hafi eingöngu verið að velta hlutunum fyrir sér og væri ekki að halda því fram að það ætti að fresta kosningunum.Athugið. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Vísir hvetur lesendur til að halda sig við málefnalega umræðu. Einnig áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi eða ósæmilegar athugasemdir og ummæli þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.